Fastir pennar

Fokk ofbeldi!

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Milljarður, vonandi, reis saman og dansaði gegn kynbundnu ofbeldi í gær. Víðs vegar um heiminn í yfir 200 löndum boðuðu UN Women, samtök Sameinuðu þjóðanna sem vinna eingöngu í þágu kvenna og jafnréttis um allan heim, til byltingar. Dansað var fyrir réttlæti, fyrir heimi þar sem konur og stúlkur þurfa ekki að óttast ofbeldi, þar sem þær njóta sömu tækifæra og karlmenn og strákar.

UN Women á Íslandi buðu til hátíðar í Hörpu þar sem yfir 1.500 manns komu saman, auk þess sem 1.000 til viðbótar dönsuðu gegn kynbundnu ofbeldi um land allt. Í kynningarefni um samkomuna birtu samtökin ógnvekjandi staðreyndir um kynbundið ofbeldi víða um heim.

Til dæmis að 600 milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert. 3.600 konum er nauðgað í Suður-Afríku á hverjum einasta degi. Um 40 til 50 prósent kvenna á evrópska efnahagssvæðinu hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og 64 milljónir stúlkna undir átján ára aldri hafa verið þvingaðar í hjónaband um heim allan.

Það eru 39 þúsund stúlkur á hverjum einasta degi eða ein á þriggja sekúndna fresti. Af þessum sökum er mæðradauði helsta dánarorsök unglingsstúlkna á aldrinum 15 til 19 ára í þróunarlöndum. Og beint af innlendum vettvangi; líklegra er að íslensk stúlka í 10. bekk hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni en að hún reyki.

Samhliða byltingunni Milljarður rís standa samtökin UN Women á Íslandi fyrir átaki sem ætlað er að vekja fólk til vitundar um kynbundið ofbeldi. Armband með áletruninni „Fokk ofbeldi“ er þessa dagana til sölu á vegum samtakanna. Orðalagið er vísvitandi ögrandi og ætlað að hreyfa við fólki. „Ef orðalagið fer fyrir brjóstið á fólki þá er mikilvægt að muna að ein af hverjum þremur konum verður fyrir ofbeldi á lífsleiðinni,“ segir meðal annars á heimasíðu samtakanna.

Ein af hverjum þremur konum verður fyrir ofbeldi. Það eru alltof margar konur. Einn þriðji af öllum íslenskum konum er um 55 þúsund. Lítið þjóðfélag sem telur ásættanlegt að tugþúsundir þegna sinna séu beittir ofbeldi reglulega er ekki siðað í neinum skilningi þess orðs. Því flest hljótum við að vera sammála um nauðsyn þess að sporna gegn þessum geigvænlegu tölum, bæði heima og erlendis. Fyrst af öllu þarf að vekja fólk til meðvitundar um þetta vandamál og viðburðir UN Women eru svo sannarlega skref í þá átt.

Boðskapur beggja viðburðanna er að þessar ömurlegu tölulegu staðreyndir um ofbeldi gegn konum munu ekki breytast nema við tökum höndum saman og breytum þeim. Hugarfarið, að hvers kyns ofbeldi gegn konum, heimilisofbeldi, hefndarklám, nauðganir, kynferðisleg áreitni á vinnustað og hvaðeina, sé óafsakanlegt, ekki töff eða virðingarvert að neinu leyti, verður að greipast í huga ungra sem aldinna. Annars mun ekkert breytast.

Ofbeldi gegn konum er smánarblettur á samfélaginu. Allar konur og allar stúlkur eiga rétt á því að lifa lífi án ofbeldis. Það er ekki róttæk krafa. Það eru grundvallarmannréttindi.






×