Innlent

Flugumferð á Keflavíkurflugvelli raskaðist eftir bilun í fluggagnakerfi

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Viðbragðsáætlun var sett í gang sem þýðir að lokað var fyrir nýja umferð inn á flugstjórnarsvæðið í kringum Ísland um tíma og brottfarir frá Keflavíkurflugvelli voru stöðvaðar.
Viðbragðsáætlun var sett í gang sem þýðir að lokað var fyrir nýja umferð inn á flugstjórnarsvæðið í kringum Ísland um tíma og brottfarir frá Keflavíkurflugvelli voru stöðvaðar. Vísir/GVA
Bilun kom upp í fluggagnakerfi í flugstöðinni í Reykjavík í dag. Þetta hafði þau áhrif að viðbragðsáætlun var sett í gang sem þýðir að lokað var fyrir nýja umferð inn á flugstjórnarsvæðið í kringum Ísland um tíma og brottfarir frá Keflavíkurflugvelli voru stöðvaðar.

Búið er að gera við kerfið og nú er unnið að því að koma umferð í eðlilegar horfur á ný.

Þær vélar sem voru á flugi og á leið inn í flugstjórnarsvæðið var beint annað á meðan á viðgerðum stóð. Þær vélar sem þegar voru komnar inn á svæðið og voru að undirbúa lendingu var heimilað að gera svo.

„Kerfið er komið upp aftur og nú er verið að minnka þessar takmarkanir hægt og rólega,“ segir Guðni Sigurðsson hjá Isavia. „Það er verið að hleypa inn einum hluta flugsvæðisins í einu. Þetta er gert eftir viðbragðsáætlun. Þetta ætti að vera komið í eðlilegt lag fljótlega.“

Síðasta vél frá Keflavíkurflugvelli fór í loftið um klukkan 14:40 en mögulega verða einhverjar seinkanir á brottförum út af þessu fram eftir degi. Ekki er vitað sem stendur hversu langar þær tafir verða.

Vefsvæðið Flightradar24 tísti um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×