Erlent

Flóttamenn auka hagvöxt í Tyrklandi

Ingvar Haraldsson skrifar
Sýrlenski flóttamaðurinn Mohmad Bozan í verslun sem hann stofnaði í landamærabænum Reyhanli í Tyrklandi. Bozan er einn af fjölmörgum flóttamönnum sem komið hafa á fót atvinnurekstri í landinu.
Sýrlenski flóttamaðurinn Mohmad Bozan í verslun sem hann stofnaði í landamærabænum Reyhanli í Tyrklandi. Bozan er einn af fjölmörgum flóttamönnum sem komið hafa á fót atvinnurekstri í landinu. NordicPhotos/getty
Sýrlenskir flóttamenn hafa aukið hagvöxt í Tyrklandi samkvæmt nýrri skýrslu Standard & Poor’s.

Sýrlendingar hafa stofnað 4.000 ný fyrirtæki í Tyrklandi frá árinu 2011, þar af 1.600 á síðasta ári og 590 til viðbótar á fyrstu þremur mánuðum ársins, að því er fram kemur í frétt The Financial Times en 2,7 milljónir Sýrlendinga hafa flúið frá Sýrlandi til Tyrklands á síðustu fimm árum.

The Financial Times bendir á að þó flestir sýrlenskir flóttamenn í Tyrklandi búi við mjög bág kjör í og við flóttamannabúðir séu margir þeirra úr sýrlenskri millistétt, sem eigi sparnað og hafi aðgang að lánsfé.

Einn þeirra er Remo Fouad, fimmtugur bakari, sem flúði Aleppo, fjölmennustu borg Sýrlands, fyrir þremur árum. Hann byrjaði á því að opna sætabrauðs- og sælgætisverslun í Egyptalandi, svo Líbanon, með sparnaði sem hann hafði falið á líbönskum bankareikningum, en báðar verslanirnar fóru á hausinn. „Í Egyptalandi áttu viðskiptavinirnir engan pening,“ segir Fouad. „Í Líbanon, komu þeir mjög illa fram við Sýrlendinga,“ bætir hann við.

Fyrir tveimur árum opnaði hann litla verslun í Istanbúl og rekur í dag verksmiðju á fjórum hæðum, tvær verslanir og stefnir á að opna þá þriðju. „Ég borga mína skatta, borga fólki góð laun og fer að lögum,“ segir hann.

Mohamed Nizar Bitar rak kera­míkverksmiðjur í Sýrland, en flúði land þegar hann var varaður við því að stjórnvöld hygðust handataka hann. Varði hann nærri fjórum milljónum króna af sparifé sínu til að koma sér og fjölskyldu sinni úr landi. Afgangurinn af sparifé hans, ríflega hundrað þúsund krónur, fór í að opna arabískan matsölustað og heimsendingarþjónustu í kjallara í Tyrklandi. Í dag rekur hann veitingahúsakeðju á sjö stöðum með 330 starfsmönnum og hefur um 260 milljónum króna verið varið í að fjárfesta í búnaði og húsnæði á vegum fyrirtækisins.

Hagvöxtur í Tyrklandi var 5,7 prósent á síðustu þremur mánuðum síðasta árs en ýmsar áskoranir fylgja þessum miklu þjóðflutningum. Fjögur prósent af íbúum Tyrklands eru Sýrlendingar og margir þeirra kunna lítið í tyrknesku. Þá er atvinnuleysi í landinu ellefu prósent og sumir tyrkneskir verkamenn telja Sýrlendinga vera að stela af þeim störfum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×