Viðskipti innlent

Flestir nýútskrifaðir lögfræðingar fengu vinnu við lögfræði

ingvar haraldsson skrifar
Það kom Eyrúnu á óvart hve hátt hlutfall starfar við lögfræði.
Það kom Eyrúnu á óvart hve hátt hlutfall starfar við lögfræði.
Alls unnu 69 prósent þeirra sem útskrifuðust með meistaragráðu úr lögfræði á síðasta ári störf tengd lögfræði í apríl síðastliðnum samkvæmt könnun Lögmannafélags Íslands (LÍ).

„Þessar niðurstöður eru betri en við bjuggumst við miðað við umræðuna þó vissulega sé ekki jafn auðvelt að fá vinnu núna og það var,“ segir Eyrún Ingadóttir, framkvæmdastjóri LÍ.

Alls 77 af þeim 111 sem svöruðu könnuninni störfuðu við lögfræði, 17 unnu annars konar störf og 17 voru atvinnulausir.

Meðallaun hinna nýútskrifuðu lögfræðinga voru um 535 þúsund krónur á mánuði samkvæmt könnuninni. Laun karla voru að meðaltali 30 þúsundum króna hærri en kvenna en ekki var merkjanlegur munur á hvers konar störf kynin unnu eða hve margar vinnustundir.

Flestir þeirra sem útskrifuðust úr HÍ fengu lögfræðistarf (45 af 55), þar á eftir nýútskrifaðir úr HR (27 af 42), svo Háskólanum á Bifröst (3 af 7) en Háskólinn á Akureyri rak lestina (2 af 8).

Alls unnu 28 prósent þeirra sem svöruðu könnuninni á lögmannsstofu, 24 prósent hjá hinu opinbera, 10 prósent hjá opinberum aðilum eða sveitarfélögum og 7 prósent hjá fjármálastofnun.

Fimmtungur þeirra sem svöruðu könnuninni töldu líklegt að þeir myndu velja annað nám en lögfræði ef þeir væru að hefja háskólanám nú. -ih






Fleiri fréttir

Sjá meira


×