Innlent

Fleiri ábendingar um vinnumansal

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir skrifa
Grunur um mansal á Íslandi hefur löngum verið tengdur nektardansstöðum og vændi. Þau mál sem lögreglan hefur haft til skoðunar sýna þó að brotin eru af fjölbreyttara tagi.
Grunur um mansal á Íslandi hefur löngum verið tengdur nektardansstöðum og vændi. Þau mál sem lögreglan hefur haft til skoðunar sýna þó að brotin eru af fjölbreyttara tagi. vísir/getty
Það er staðreynd að mansal þrífst á Íslandi. Þetta segir Snorri Birgisson, rannsóknarlögreglumaður á Suðurnesjum, sem rannsakað hefur mansalsmál og staðið fyrir fræðslu um þau undanfarin ár. Hann segir ábendingum um mansal fara fjölgandi í takt við aukna fræðslu á einkennum þess.

Snorri Birgisson lögreglumaður
Birtingarmyndir mansals eru margvíslegar á heimsvísu. Í áætlun ríkisstjórnarinnar gegn mansali á Íslandi er það sagt vera til dæmis hagnýting á einstaklingum í kynferðislegum tilgangi, vinnuþrælkun eða refsiverð hagnýting á líkama einstakling með til dæmis fíkniefnasmygli eða líffærasölu. Einstaklingur eða hópur einstaklinga er notaður í ábataskyni með einum eða öðrum hætti.

Mesta aukningin hérlendis undanfarið hefur verið í ábendingum um vinnumansal. Um skipulagða glæpastarfssemi er að ræða þar sem stórir glæpahópar standa oft að baki kaupum og sölum á manneskjum.

Árið 2009 var dæmt í fyrsta og eina skipti í mansalsmáli hérlendis. Ákært hefur verið í nokkrum málum þar sem mansal kemur við sögu en sýknað hefur verið í ákærum um mansalsþáttinn.

Snorri segir um að ræða flókin mál þar sem oft getur reynst erfitt að sanna hvort um mansal sé að ræða. Einnig vegna þess að oft getur reynst erfitt að fá fórnarlömbin til samstarfs. Þau eru oft beitt mikilli kúgun og eru hrædd við að segja frá. Það reynist líka erfitt að hafa uppi á fórnarlömbum mansals því þeir sem fyrir því standa passa vel upp á einangrun þeirra.

„Blekking og einangrun eru stórir þættir í þessu. Oft er þetta þannig að fólk kemur hingað á röngum forsendum með loforð um góða vinnu og húsnæði. Síðan þegar það er komið til landsins þá er raunin önnur,“ segir hann. „Oft eru vegabréf tekin af fólki og það getur ekki tjáð sig við yfirvöld án afskipta yfirmanna. Þeim er sagt að það kosti peninga að fá kennitölu og að tala við félagsþjónustuna. Þetta eru einstaklingar sem þekkja ekkert annað og vita ekki hvert þeir eiga að leita.“

Snorri segir að þau mál sem lögreglan hafi haft til skoðunar tengist ýmsum geirum atvinnulífsins. „Þær upplýsingar sem við höfum verið að fá tengjast mörgum stigum þjóðfélagsins. Byggingarvinnu, ferðaþjónustu, hreingerningarfyrirtækjum og fleiri.“

Eftir að mansalsmálið kom upp árið 2009 var farið að skoða mansalsmál með öðrum augum. „Þegar við horfum til dæmis til starfsmannaleiganna sem voru mikið hér í góðærinu þá hefðum við eflaust skoðað það á allt annan hátt ef við hefðum á þeim tíma haft þá vitneskju sem við höfum núna um mansal.“

Mansalsmál eru flókin viðureignar og geta tengst ýmsum kimum samfélagsins. Nýleg mál sem lögreglan hefur verið að skoða hafa til dæmis tengst því að fólk smygli fíkniefnum til landsins og sé síðan nýtt í það að stunda vændi eða vinnumansal eftir smyglið. „Við höfum kallað það margnýtingu á manneskju sem vöru. Það er eitthvað sem við erum nýfarin að sjá og er í rauninni dapurt. Þarna eru tveir stærstu brotaflokkarnir farnir að sameinast undir einn hatt.“

Fólk sem er hér á landi í vinnumansali býr yfirleitt við mjög slæmar aðstæður. Nýr vinkill á þessum málum eru svokallaðir verndartollar. „Fólk er þá að borga ákveðnum aðila pening fyrir að halda vinnu sinni. Þá er beitt þessari blekkingu að aðilinn hafi einhver ítök en hann er bara að beita fjárkúgun. Eins er verið að borga ákveðnar upphæðir fyrir að búa við öryggi. Það er verið að hagnýta sér viðkomandi sem þekkir ekki umhverfið og réttindi sín.“

Snorri segir mikilvægt að fræða fólk um einkenni mansals og opna augu almennings fyrir því að það eigi sér stað hérlendis. Sjálfur sótti hann fræðslu á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins, og hefur verið að fræða víða um þessi mál. „Við höfum verið að stíla inn á það fólk sem gæti á einhverjum tímapunkti átt í samskiptum við hugsanleg fórnarlömb. Lögreglumenn, útlendingastofnun, Rauða krossinn og þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar svo eitthvað sé nefnt. Við höfum líka verið að tala við stéttarfélögin og starfsmenn lögreglu, fræða þá sömuleiðis. Þetta vandamál hefur lengi verið til staðar en við verðum vör við það núna af því við þekkjum einkenni þess og horfum öðruvísi á þessi mál.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×