Erlent

Fjörutíu fallnir í árásum Boko Haram í dag

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Nígeríuher fær þrjá mánuði til að uppræta hryðjuverkasamtökin Boko Haram.
Nígeríuher fær þrjá mánuði til að uppræta hryðjuverkasamtökin Boko Haram. vísir/epa
Að minnsta kosti 38 féllu og yfir 50 særðust þegar þrjár sprengjur sprungu á fjölförnum stöðum í Tsjad í dag. Talið er að vígamenn hryðjuverkasamtakanna Boko Haram beri ábyrgð á árásinni. Ein sprengjan sprakk á fiskmarkaði en hinar tvær í flóttamannabúðum í Baga Sola, skammt frá landamærum Nígeríu.

Undanfarna mánuði hafa hersveitir frá Níger, Tsjad og Kamerún barist með Nígeríuher gegn sveitum Boko Haram. Forseti Nígeríu, Muhammadu Buhari, gaf nú fyrir helgi her sínum þrjá mánuði til að stöðva hryðjuverkasamtökin.

Að minnsta kosti sautján þúsund manns hafa fallið í árásum Boko Haram í Nígeríu og nágrannaríkjum, og undanfarin sex ár hafa um ein og hálf milljón manna flúið heimkynni sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×