Lífið

Fjórtán ára og rekur hjólaleigu

Sara McMahon skrifar
 Eydís Sól Steinarrsdóttir, fjórtán ára, rekur hjólaleiguna Sunny Bikes við Klapparstíg.
Eydís Sól Steinarrsdóttir, fjórtán ára, rekur hjólaleiguna Sunny Bikes við Klapparstíg. Fréttablaðið/valli
„Þetta er mjög gaman, fólk er hresst og það er mikið stuð á svæðinu við Hjartagarðinn. Leigan hefur gengið rosalega vel og ég hef meira að segja þurft að leigja út hjólið mitt og hans pabba,“ segir Eydís Sól Steinarrsdóttir sem rekur hjólaleiguna Sunny Bikes við Klapparstíg 30. Eydís keypti tíu borgarhjól fyrir sumarið og leigir þau út til ferðamanna.

„Hjólin voru flutt inn fyrir álverið í Straumsvík, en svo seld því vegna öryggisástæðna var bannað að nota þau í álverinu. Það gekk illa að selja þau því þetta eru einsgíra borgarhjól og ég fékk þau því öll á lægra verði,“ útskýrir Eydís.

Hjólaleiguna rekur hún í sama húsnæði og hýsir bílaleiguna Kúkú Campers sem faðir hennar, Steinarr Lár, rekur. Eydís segist hafa fengið ýmis góð ráð frá föður sínum enda sé hann reynslunni ríkari.

„Hann hefur sagt mér til og gefið mér ráð. Það er að mörgu að huga og ég sé um flestallt sjálf, líka bókhaldið og pappírsvinnuna. En þetta kemur mestallt með reynslunni,“ segir hún.

Eydís lætur ekki nægja að reka hjólaleiguna, því hún hannaði einnig lógó fyrirtækisins sjálf. „Ég var vön að skrifa nafnið mitt, Eydís, og svo sól fyrir aftan og ákvað að nota það í lógóið,“ útskýrir hún.

Eydís byrjar í 10. bekk í Garðaskóla í haust og kveðst hlakka mikið til. Í frítíma sínum iðkar hún bæði snjó- og brimbrettaíþróttina með föður sínum. „Ég held ég sé eina stelpan á mínum aldri sem fer á brimbretti, yfirleitt fer ég bara ein með pabba og vinum hans. Við fórum líka saman til Austurríkis á snjóbretti í vetur og það var rosalega gaman. Pabbi hefur orðið Íslandsmeistari á snjóbretti og ég stefni á að verða betri en hann,“ segir hún að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×