Erlent

Fjöldi særður eftir mótmæli gegn forseta Venesúela

Birgir Olgeirsson skrifar
Mótmælendum lenti saman við lögreglu.
Mótmælendum lenti saman við lögreglu. Vísir/AFP
Rúmlega tuttugu særðust og 39 voru teknir höndum í mótmælum gegn ríkisstjórn Venesúela í kvöld. Ljósmyndum hefur verið deilt á samfélagsmiðlum af særðu fólki en fregnir hafa borist af því að þrír hafi orðið fyrir skoti.

Greint er frá því á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC að hundruð þúsunda hefðu hópast saman á götum úti til að mótmæla ríkisstjórn forseta landsins Nicolas Maduro.

Boðað var til mótmælanna eftir að komið var í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um að steypa Maduro af stóli.

Stjórnarandstaðan hafði safnað um 200 þúsund undirskriftum þar sem kallað er eftir þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Yfirvöld stöðvuðu hins vegar ferlið í síðustu viku og héldu því fram að undirskriftanna hefði verið aflað á fölskum forsendum.

Stjórnarandstaðan er með meirihluta á þingi Venesúela en þar var tillaga um opin réttarhöld gegn Maduro samþykkt nýverið, en stjórnarandstöðuþingmennirnir saka hann um að hafa brotið gegn stjórnarskrá landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×