Innlent

Fjöldi manns vill taka geitur í fóstur

Samúel Karl Ólason skrifar
Síðastliðinn laugardag fór Hugrún Halldórsdóttir í Íslandi í dag í heimsókn að Háafelli og ræddi við Jóhönnu Bergmann Þorvaldsdóttir, geitabónda, og fékk að kynnast geitunum þar á bæ.

Ef áfram heldur sem horfir sagði Jóhanna að hún þyrfti að senda öll sýn dýr, 190 geitur og 200 kiðlinga í slátrun. Þá sagðist hún vera uggandi um framtíð íslenska geitastofnsins, en geiturnar á Háafelli eru um 22 prósent íslenska stofnsins.

Aðspurð um aukningu í því að fólk sé að taka geitur í fóstur segir Jóhanna mikla fjölgun hafa verið í því. „Það hefur aukist. Þessi möguleiki hefur verið í boði í fjögur ár en það hefur aukist mikið núna. Það er mjög jákvætt,“ segir Jóhanna.

Jóhanna fékk um helgina mikinn fjölda tölvupósta og símtala. „Fólk er að hringja og spjalla um ýmislegt og spyrja um geiturnar. Ég hef fengið töluverð viðbrögð.“

Jóhanna segir geiturnar vera með mikinn karakter. „Þetta er eins og mannfólkið. Það eru engar tvær eins og fólk áttar sig ekki almennilega á því fyrr en það er búið að heilsa upp á þær.“

Þann 15. mars var Facebook hópurinn Björgum geitunum á Háafelli í Borgarfirði stofnaður og þegar eru í henni 2.097 meðlimir.

Að taka geit í fóstur kostar 8.000 krónur á ári sem ganga upp í fóðurkostnað og umönnun. Fósturforeldrar geitarinnar geta komið með fjölskylduna í heimsókn að Háafelli tvisvar sinnum á ári og reglulegar fréttir af geitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×