Viðskipti innlent

Fjögurra milljarða tap af björgun Sjóvár

Magnús Halldórsson skrifar
Skattgreiðendur töpuðu fjórum milljörðum á björgun tryggingarfélagsins Sjóvár, en Seðlabankinn eignaðist kjölfestuhlut í tryggingarfélaginu eftir að ríkissjóður kom fyrirtækinu til bjargar eftir hrun.

Fyrir ríflega þremur árum ákváðu íslensk stjórnvöld að koma tryggingafélaginu Sjóvá til bjargar með 11,6 milljarða króna framlagi. Seðlabanki Íslands eignaðist í kjölfarið ráðandi hlut í fyrirtækinu sem hann hefur nú selt frá sér. Niðurstaðan af þessari björgun er fjögurra milljarða króna tap skattgreiðenda.

Þegar tilkynnt var um aðkomu ríkissjóðs að tryggingafélaginu Sjóvá, hinn áttunda júlí 2009, var tekið fram að aðkoma ríkissjóðs grundvallaðist að því að tryggja hagsmuni almennings. Fjármálaeftirlitið gerði kröfu um að tryggingarfélaginu yrði bjargað, og var aðkoma ríkisins byggð á því mati.

Í gær lá fyrst endanlega fyrir hver útkoma þessarar björgunaraðgerðar væri, en þá var tilkynnt um Seðlabankinn hefði selt allan 73 prósent hlut sinn í Sjóvá til samlagshlutafélagsins SF1. Samtals fékk Seðlabankinn 7,4 milljarða fyrir hlut sinn.

Eigendur Sjóvár eru, auk fyrrnefnds félags, þrotabú Glitnis og Íslandsbanki.

Eigendur SF1 eru margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins auk fjárfestanna Steinunnar Jónsdóttur, Ernu Gísladóttur, Tómasar Kristjánssonar og Jóns Diðriks Jónssonar, meðal annarra.

Haukur Benediktsson, framkvæmdastjóri Eignahaldsfélags Seðlabankans, gat ekki veitt fréttastofu viðtal í dag, en sagði niðurstöðu þessar viðskipta vera ásættanlega að mati Seðlabankans sem kappkostaði eins og hann gæti að endurheimta kröfur úr hruninu. Þá væri ekki síður mikilvægt að rekstur Sjóvár væri nú kominn á réttan kjöl, þó alltaf sé sársaukafullt að tapa peningum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×