Skoðun

Fjármálalæsi

Sölvi Sveinsson skrifar
Rannsóknir Breka Karlssonar, forstöðumanns Stofnunar um fjármálalæsi, hafa sýnt að landsmenn eru illa að sér um fjármál, bæði ungir og aldnir. Allt of margir fá falleinkunn í könnunum Breka. Vitnisburður um fjármálaólæsi blasir við í fréttum flesta daga og er margsinnis ástæða fyrir ófarnaði einstaklinga. Og hvað er þá til ráða?

Í námsefni fyrir grunnskóla er allvíða vikið að fjármálum, einkum í stærðfræði, lífsleikni og heimilisfræði; í reikningnum eru m.a. til sérstök þemahefti um efnið. Vandinn er hins vegar sá að það virðist vera tilviljun háð og kunnáttu kennara hvort og þá hvernig þetta efni er kennt. Á því verður að ráða bót. Fjármálalæsi kemur við sögu í nýrri námsskrá fyrir grunnskóla og nú er að því unnið að skilgreind verði sú hæfni sem unglingar eiga að búa yfir þegar þeir ljúka grunnskóla og hún verði þá hluti af einkunn þeirra. Ekki þarf að óttast námsefnisþurrð því að margar og góðar hugmyndir liggja fyrir hjá einstaklingum og forlögum til viðbótar við það efni sem þegar er til.

Íhaldssemi skóla

Í framhaldsskóla eru fjármál m.a. á dagskrá í lífsleikni og í viðskiptagreinum, þar sem þær eru kenndar. Brýnt er að skilgreina hæfniviðmið fyrir framhaldsskólann í þessum efnum því að hartnær allir unglingar eru a.m.k. tvö ár í framhaldsskóla. Þeir eru neytendur framtíðarinnar og verða að kunna fótum sínum fjárhagsleg forráð; ekki veitir heldur af að styrkja vitund þeirra sem neytenda, því að landsmenn eru að jafnaði afar ógagnrýnir miðað við það sem tíðkast í nágrannalöndum og vestur í Ameríku, en hér kyngja flestir neytendur möglunarlaust því sem að þeim er borið. Siðfræði er nauðsynleg námsgrein í þessu samhengi.

Skólakerfið hefur vanrækt fjármálafræðslu og hún er ómarkviss og líklega endurtekningasöm milli grunn- og framhaldsskóla. Átaksverkefni sem nú er unnið að mætir nokkru tómlæti. Nú veit ég vissulega að þrýst er á skólana til að koma þar að ýmiss konar efni og finnst mörgum sem ekki sé á þá bætandi. En þá er líka á hitt að líta að skólar eru íhaldssamir. Kannski mótast þeir meira af fortíð kennara en framtíð nemenda.

Lausleg athugun á námsskrám grunn- og framhaldsskóla á heimasíðum þeirra sýnir ljóslega að fjármálalæsi er höfundum þeirra ekki ofarlega í huga. Á þessu verður að ráða bót, það er hagur allra. Endurmenntun kennara er lykilatriði í þessum efnum og skólakerfið verður að vakna til vitundar um ábyrgð sína. Ráðuneyti menntamála þarf að geirnegla fræðslu um fjármál í námsskrár grunn- og framhaldsskóla.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×