Viðskipti innlent

Fjárfesta fyrir tæpa níu milljarða

Stefán Árni Pálsson skrifar
Visir/GVA
Þrjú dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur hyggjast fjárfesta fyrir tæpa níu milljarða króna á árinu 2015 en þetta kemur fram í tilkynningu frá OR og kom fram á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í gær.

Á þinginu kynntu þau Inga Dóra Hrólfsdóttir, Páll Erland og Erling Freyr Guðmundsson fjárfestingaáætlanir OR-Veitna, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur. Þau eru framkvæmdastjórar þessara dótturfélaga Orkuveitu Reykjavíkur og í fyrsta sinn kynntu þau hvert fyrir sig fjárfestingar fyrirtækjanna.

Stærsta einstaka verkefnið er lagning Hverahlíðalagnar á vegum ON. Það er þegar hafið og í því felst lagning gufulagna frá borholum við Hverahlíð á Hellisheiði að Hellisheiðarvirkjun. Mestur þungi framkvæmda er nú í ár en frágangi mun ljúka 2016. Um 2,5 milljarður renna til þess verkefnis. Fjárfesting alls er áætluð tæplega 3,9 milljarða.

Í veiturekstrinum er uppbygging nýrrar fráveitu á Vesturlandi að fara af stað að nýju. Því verkefni var frestað í fjárhagserfiðleikunum eftir hrun en því á að ljúka fyrir árslok 2016. Um 650 milljónir renna til þess verkefnis í ár en næststærst er endurnýjun Reykjaæða, sem flytja hitaveituvatn til höfuðborgarinnar úr Mosfellsbæ. Endurnýjað verður sitt hvoru megin Elliðaánna nú í ár og mun það kosta hátt í 400 milljónir. Fjárfesting alls er áætluð tæplega 4,7 milljarðar króna.

Gagnaveita Reykjavíkur er nú á síðustu metrunum að ljúka uppbyggingu ljósleiðarakerfis í Reykjavík. Fram komu á útboðsþinginu áhugaverðar upplýsingar um útbreiðslu Ljósleiðara Gagnaveitunnar en áformað er að verja 400 milljónum króna til frekari útbreiðslu þess á árinu 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×