Körfubolti

Finnur Freyr: Lélegasti leikur liðsins síðan ég tók við

Kristinn Geir Friðriksson í DHL-höllinni skrifar
Finnur Freyr var ekki par sáttur með spilamennsku sinna manna í kvöld.
Finnur Freyr var ekki par sáttur með spilamennsku sinna manna í kvöld. vísir/ernir
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, var ekki par hrifinn af frammistöðu sinna manna gegn Njarðvík í kvöld.

„Þetta er lélegsta frammistaða liðsins síðan ég tók við því, fyrir þremur árum. Á öllum vígstöðvum vorum við langt frá okkar besta. Við byrjum ágætlega og erum að hlaupa ágætan sóknarleik og erum að fá fín skot en sniðskotin fóru ekki niður. Opin skot frá okkar skyttum fóru ekki niður og þá verða hlutirnir erfiðir,“ sagði Finnur.

„Frammistaðin í heild var einfaldlega langt fyrir neðan allar hellur og ekki okkur bjóðandi. En svona er þetta stundum; þegar þú spilar illa, taparðu. Það er svo einfalt.“

Lykilmenn KR áttu undarlegt kvöld, svo ekki verður meira sagt og þó Finnur hafi alls ekki kafað djúpt á bekkinn (aðeins 8 leikmenn komu við sögu) þá voru aðeins tveir byrjunarliðsmenn sem spiluðu síðustu fimm mínúturnar.

„Ég var óánægður með allt liðið, við vorum búnir að vera að reyna hitt og þetta lunga leiks. það var ekki búið að ganga og þá verður maður að breyta einhverju og Arnór [Hermannsson], sérstaklega, kom með kraft inn. Strákur sem er búinn að vera að spila vel það sem af er vetri,“ sagði Finnur.

„Ungu strákarnir stóðu sig vel en munurinn var orðinn of mikill þarna síðustu sex mínúturnar til þess að eiga raunhæfan möguleika, það hefði allt þurft að ganga upp. En þeir gerðu vel og börðust; gerðu þetta þannig að við gátum gengið nokkuð sómasamlega frá leiknum en frammistaðan bara djók.“

Aðspurður hvort liðið færi í naflaskoðun núna sagði Finnur:

„Neinei, við skulum ekki tapa okkur. Við vitum alveg hvað við getum, stundum erum við í stuði og stundum ekki. Við vitum að við þurfum að vera betri. Við þurfum að taka skilaboðunum sem við fengum í þessum leik en ekki lesa of mikið í stöðuna,“ sagði Finnur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×