Innlent

Fimm þúsund gestir á heimsmóti skáta á Íslandi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Búist er við skátum frá meira en 80 löndum á heimsmót eldri skáta á Íslandi næsta sumar.
Búist er við skátum frá meira en 80 löndum á heimsmót eldri skáta á Íslandi næsta sumar. Vísir/Daníel

Áætlað er að fimm þúsund gestir og eitt þúsund sjálfboðaliðar taki þátt í alþjóðlegu skátamóti á suðvesturhorni Íslands á næsta ári. Verður það stærsta alþjóðlega mótið sem íslenskir skátar hafa staðið fyrir til þessa.



Fram kemur í bréfi þar sem óskað er eftir samstarfi við Hafnarfjarðarbæ að Bandalag Íslenskra skáta haldi heimsmót skáta á aldrinum 18 til 25 ára frá 24. júlí til 2. ágúst næsta sumar. Búist sé við allt að fimm þúsund skátum auk um eitt þúsund sjálfboðaliða sem starfi á mótinu.



„Það er trú mótshaldara að eftir miklu sé að slægjast að fá að hýsa tjaldbúðir fyrir mótsgesti þar sem jákvæð upplifun ungmenna hvaðanæva úr heiminum muni vera góð auglýsing fyrir viðkomandi svæði, auk þess sem svo mörgum gestum fylgja að sjálfsögðu töluverð umsvif og verslun,“ segir í bréfi Braga Björnssonar skátahöfðingja og Hrannar Pétursdóttur, mótstjóra World Scout Moot 2017, fyrir hönd Bandalags íslenskra skáta og mótsstjórnarinnar.



„Að auki er hluti af dagskrá mótsins að hver og einn þátttakandi sinni samfélagsþjónustu 4 til 8 klukkustundir á því svæði eða í sveitarfélagi sem tjaldsvæðið er, samkvæmt nánara samkomulagi við viðkomandi sveitarfélag eða landeiganda,“ segir áfram í bréfinu.

Bragi Björnsson skátahöfðingi.

Áætlað er að meira en 80 prósent þátttakenda verði frá um 80 löndum. Fyrstu dagana verði dvalið á tjaldstæðum vítt og breitt um um sunnan- og vestanvert landið.



Á hverju tjaldstæði verði um 200 til 400 skátar á litlu móti með fjölbreyttri dagskrá tengdri útiveru, náttúru og menningu viðkomandi svæðis. Allir verði síðan í lokin á hátíð við Úlfljótsvatn.



„Undirbúningur mótsins hefur þegar staðið yfir í fimm ár, enda um að ræða viðamesta verkefni sem skátahreyfingin á Íslandi hefur tekið að sér,“ segja skátarnir. „Mótsstjórn óskar því eftir að eiga fund með hlutaðeigandi á komandi vikum til þess að ræða nánar mögulegt samstarf og þjónustuverkefni sem skátarnir gætu innt af hendi.“



Bæjarráð Hafnarfjarðar tók jákvætt í erindið.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×