Erlent

Fimm grunaðir um aðild að árásinni í Istanbúl

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Mennirnir fimm eru taldir vitorðsmenn árásarmannsins.
Mennirnir fimm eru taldir vitorðsmenn árásarmannsins. vísir/afp
Fimm hafa verið handteknir í tengslum við árásina í Istanbúl í Tyrklandi á mánudag þar sem tíu biðu bana. Árásarmaðurinn var flóttamaður frá Sýrlandi sem talinn er hafa verið liðsmaður hryðjuverkasamtakanna ISIS, að því er segir á vef Guardian.

Mennirnir fimm eru grunaðir um aðild að árásinni og jafnframt taldir tengjast Íslamska ríkinu. Á sjötta tug hafa verið handteknir, grunaðir um tengsl við samtökin, undanfarna daga og húsleit hefur verið gerð á um þrjátíu stöðum í suðurhluta landsins.

Tyrknesk yfirvöld greindu frá því í gærkvöldi að árásarmaðurinn hafi komið til landsins sem flóttamaður. Hann hafi þó ekki verið undir sérstöku eftirliti, líkt og margir aðrir flóttamenn.  Alls féllu tíu í árásinni, allt þýskir ferðamenn, og fimmtán særðust.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en undanfarna mánuði hafa nokkrar mannskæðar sprengjuárásir verið gerðar í Tyrklandi. Yfir hundrað manns féllu þegar tvær sjálfsvígsárásir voru gerðar í höfuðborginni Ankara í október, og yfir þrjátíu manns í árás sem gerð var í bænum Suruc í júlí síðastliðnum.


Tengdar fréttir

Öflug sprenging í Istanbúl

Tyrkneskir miðlar segja að tíu manns hið minnsta hafi látið lífið í sjálfsvígssprengjuárás í Sultanahmet-hverfinu í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×