Innlent

Femínistafélagið: Okkur finnst þetta leiðinlegt

Boði Logason skrifar
Sex karlar og fjórar konur eru í nýju ríkisstjórninni.
Sex karlar og fjórar konur eru í nýju ríkisstjórninni.

„Í raun og veru finnst okkur þetta frekar leiðinlegt, við hörmum þetta," segir Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir, ráðskona í Femínistafélagi Íslands, um kynjahlutfallið í nýju ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Þar hefur konum fækkað og eru nú sex karlar ráðherrar og fjórar konur.

Hrafnhildur segir að það sé leiðinlegt að ekki hafi verið hægt að hafa kynjahlutfallið jafnt eins og var í síðustu ríkisstjórn. „Í fyrsta skiptið í sögu landsins voru jöfn kynjahlutföll í ríkisstjórninni því finnst okkur þetta vera mjög leitt." Hún segir að í stjórnarsáttmálanum standi að mikil áhersla verði lögð á jafnréttismál. Því sé ekki fylgt eftir með skipan nýrra ráðherra.

Hún vill ekki persónugera skipunina. „En það er fullt af hæfum konum þarna, þessir ríkisstjórnarflokkar hafa talað mikið fyrir jafnréttismálum og því finnst okkur leiðinlegt að þegar á hólminn er komið að ekki sé staðið við það."

Jóhanna Sigurðardóttir sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að breytingarnar séu einungis fyrsti áfanginn í uppstokkun á ríkisstjórninni. „Við erum líka að fara í breytingar um áramót og þá vona ég að sú skekkja leiðréttist," sagði Jóhanna.

Hrafnhildur segir að engin rök séu fyrir því að fresta jafnrétti fram yfir áramót.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×