Viðskipti innlent

Feðgarnir í forlaginu menn ársins að mati Frjálsrar verslunar

Frjáls verslun.
Frjáls verslun.
Feðgarnir í Forlaginu, Jóhann Páll Valdimarsson og Egill Örn Jóhannsson, eru menn ársins í atvinnulífinu á Íslandi árið 2012, að mati Frjálsrar verslunar. Þeir eru útgefendur í annan og þriðja ættlið og þekkja útgáfusögu Íslands betur en flestir aðrir.

Þeir feðgar hljóta þennan heiður fyrir arðbæra bókaútgáfu til góðs fyrir íslenskt samfélag og menningu, fagmennsku, stórhug og útsjónarsemi sem gert hefur Forlagið að einu athyglisverðasta fyrirtæki á Íslandi.

Forlagið hefur frá upphafi, eða allt frá því það var stofnað árið 2001, verið rekið með hagnaði. Síðustu árin hefur félagið státað af 10 til 15% hagnaði eftir skatta af veltu.

Það velti tæpum 1,3 milljörðum króna á síðasta ári og hagnaðist um 104 milljónir eftir skatta. Eigið féð var tæplega 1,1 milljarður króna og hefur byggst upp jafnt og þétt. Heildareignir Forlagsins voru um 1,7 milljarðar króna um síðustu áramót og langtímaskuldir litlar.

Forlagið gefur út bækur undir merkjum JPV, Máls og menningar, Vöku-Helgafells og Iðunnar og rekur þess utan metnaðarfulla kortaútgáfu. Þá er Heimskringla háskólaútgáfa einnig innan vébanda félagsins.

Jóhann Páll Valdimarsson og fjölskylda eiga 50% í Forlaginu á móti Máli og menningu Bókmenntafélagi sem er sjálfseignarstofnun.

Verðlaunin verða afhent formlega í dag, 28. desember, kl. 16:00 á Hótel Sögu, í veislu sem Frjáls verslun heldur þeim feðgum til heiðurs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×