Íslenski boltinn

Fanndís með þrennu í Eyjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fanndís skoraði þrennu á sínum æskuslóðum í kvöld.
Fanndís skoraði þrennu á sínum æskuslóðum í kvöld. Vísir/Stefán
Fanndís Friðriksdóttir skoraði þrennu í 4-0 sigri Breiðabliks á ÍBV í Pepsi-deild kvenna í kvöld. Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir kom Blikum á bragðið í kvöld en Fanndís skoraði svo næstu þrjú mörk, öll í síðari hálfleik.

Fanndísi líður greinilega vel á Hásteinsvelli enda uppalin í Vestmannaeyjum. Hún hefur þó leikið allan sinn meistaraflokksferil í Breiðabliki fyrir utan eitt tímabil í Noregi.

Breiðablik, sem er ósigrað í Pepsi-deild kvenna, er nú aftur með fjögurra stiga forystu á Stjörnuna á toppi deildarinnar. Blikar eru með 25 stig en ÍBV er í fimmta sæti með þrettán.

Þór/KA og Selfoss gerðu 1-1 jafntefli. Lillý Rut Hlynsdóttir kom heimamönnum yfir snemma leiks en Guðmunda Brynja Óladóttir var hetja Selfyssinga og tryggði þeim stig með marki á 88. mínútu.

Selfoss er í þriðja sæti með sautján stig en Þór/KA í sjötta sæti með tólf stig.

Upplýsingar um markaskorara frá Úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×