Erlent

Fann alnöfnu fyrrverandi og býður henni í heimsreisu

Atli Ísleifsson skrifar
Elizabeth Gallagher og Jordan Axani.
Elizabeth Gallagher og Jordan Axani. Vísir/AP
Kanadamaðurinn Jordan Axani er búinn að finna eina alnöfnu fyrrverandi kærustu sinnar og munu þau leggja af stað í ferð um heiminn á sunnudaginn. Vísir sagði frá sögu Axani í síðasta mánuði.

Hinn 28 ára Toronto-búi Jordan Axani birti auglýsingu á Reddit þar sem hann auglýsti eftir kanadískri konu með nafnið Elizabeth Gallagher til að bókaðir flugmiðar fyrrverandi kærustunnar fari ekki spillis. Þau höfðu ætlað sér að fara í heimsreisu, en hættu saman og gat Axani ekki fengið miða fyrrverandi kærustu sinnar endurgreidda. Brá hann því á það ráð að auglýsa eftir alnöfnu hennar til að fara með honum í þessa skipulögðu heimsreisu.

Ferðin hefst á sunnudaginn þar sem þau fljúga frá New York til Milanó. Flogið verður aftur heim til Toronto þann 8. janúar, en á leiðinni munu þau meðal annars koma við í París, Prag, Bangkok og Nýju-Delí.

Eftir að Axani birti auglýsinguna á Reddit höfðu átján alnöfnur fyrrverandi kærustu hans með kanadískt vegabréf samband við hann. Nú er hann búinn að velja sér ferðafélaga, hina 23 ára Elizabeth Quinn Gallagher frá Nova Scotia.

Í fyrstu þótti Gallagher sú hugmynd að ferðast um með ókunnugum manni sem á fyrrverandi kærustu með sama nafn og hún, vera sturluð. En eftir að hafa rætt við Axani í síma í nokkrar klukkustundir komust þau að því að þau náðu vel saman.

Gallagher á sjálf kærasta og viðurkennir fúslega að sá sé ekkert yfir sig hrifinn hugmyndinni. „Við höfum verið lengi saman. Við hugum nú að því að kaupa hús og svo eigum við saman hvolp, svo ég er í raun ekki að leita að einhverju.“

Eftir að saga Axani komst í heimsfréttirnar hefur Marriott hótelkeðjan samþykkt að bjóða þeim Axani og Gallagher tvö herbergi á öllum hótelum þeirra í ferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×