Fæstir stjórnmálaflokkanna hafa skilað Ríkisendurskoðun ársreikningum vegna ársins 2009 en skilafrestur þeirra var til 1. október í ár. Í ársreikningum kemur fram hvaða fyrirtæki hafa styrkt flokkana, hversu miklum fjármunum þeir hafa úr að spila og svo framvegis. Lárus Ögmundsson hjá Ríkisendurskoðun segir að flokkarnir eigi yfirleitt erfitt með að skila á réttum tíma.
Þau stjórnmálasamtök sem höfðu skilað í gær voru Borgarahreyfingin, Hreyfingin, þinghópur Hreyfingarinnar, VG og Samtök fullveldissinna. Lárus sagðist þó vita til þess að skil væru „alveg að bresta á“ hjá hinum flokkunum.
Einnig er stutt í að birtar verði upplýsingar um kostnað við prófkjör frambjóðenda vegna sveitarstjórnarkosninga vorsins, en Lárus segir þær verða annars eðlis en hingað til.
„Það er greinilega orðin viðhorfsbreyting, sem manni finnst nærtækt að ætla að endurspeglist í allri þessari umræðu um styrkveitingar til stjórnmálalífsins. Núna er þetta nánast allt yfirlýsingar um að kostnaður hafi verið undir 300.000 krónum hjá hverjum frambjóðanda,“ segir hann.- kóþ
Fáir flokkar hafa skilað ársreikningi
