Lífið

Fagnar ýmsum tímamótum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Það er nóg um að vera hjá Sirrý þessa dagana en hún fagnar fimmtugsafmæli í dag.
Það er nóg um að vera hjá Sirrý þessa dagana en hún fagnar fimmtugsafmæli í dag. mynd/HelmaÞorsteinsdóttir
„Sonur minn er að keppa á Íslandsmeistaramótinu í golfi og ég ætla að vera uppi á Skaga að fylgjast með því á sjálfan afmælisdaginn og svo ætla ég að halda stóra veislu í næstu viku,“ segir Sigríður Arnardóttir, sem flestir þekkja sem Sirrý, fjölmiðlakona og stjórnandi þáttanna Fólk með Sirrý og Lífsins list sem sýndir eru á Hringbraut.

Sirrý segir fögnuðinn helst koma til vegna þess að hún hafi mörgu að fagna á árinu og því kjörið að efna til einnar stórrar veislu.

„Ég verð fimmtug á sunnudaginn og á þrjátíu ára starfsafmæli í fjölmiðlum og silfurbrúðkaupsafmæli á næstunni,“ segir hún létt í lund og bætir við: „Ef einhvern tímann er ástæða til að halda veislu þá er það núna.“

Það er nóg um að vera hjá Sirrý en hún segist þó gæta þess að slaka á með góðan kaffibolla úti í garði og horfa á rósirnar blómstra.

Sirrý er ekki upptekin af afmælisgjöfum en man vel eftir ákveðinni afmælisgjöf úr æsku, fyrsta dúkkuvagninum sem hún eignaðist.

„Þegar ég fékk dúkkuvagninn varð ég svo hamingjusöm og ég finn þessa hamingju þegar ég rifja það upp, það er eitthvað minni í frumunum,“ segir hún glöð í bragði og bætir að lokum hlæjandi við: „Ég verð að hugsa um þennan dúkkuvagn oftar greinilega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×