Erlent

Færeyingar kjósa til þings

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Samsteypustjórn fjögurra hægri- og miðjuflokka er nú við stjórn í Færeyjum.
Samsteypustjórn fjögurra hægri- og miðjuflokka er nú við stjórn í Færeyjum.
Nokkur spenna ríkir um úrslit lögþingskosninganna í Færeyjum, sem haldnar verða í dag. Tvær skoðanakannanir, sem báðar birtust í gær, eru harla misvísandi.

Gallup spáir Jafnaðarflokknum öruggum sigri og þar með falli stjórnar hægri- og miðjuflokkanna, en Fynd spáir því að Fólkaflokkurinn, sem er einn stjórnarflokkanna, verði stærstur.

Kaj Leo Johannessen lögmaður gerir sér vonir um að stjórnarmeirihlutinn haldi velli, þrátt fyrir misvísandi skoðanakannanir.Mynd/Norden.org
Ekki yrði munurinn þó mikill. Fjórum flokkum er öllum spáð í kringum 20 prósent atkvæða, þannig að Kaj Leo Johannessen lögmaður, sem er leiðtogi Sambandsflokksins, gæti enn átt möguleika á að halda velli.

Núverandi samsteypustjórn fjögurra hægri- og miðjuflokka hefur haft 20 manna öruggan meirihluta á hinu 33 manna Lögþingi Færeyja.

Sambandsflokkurinn og Fólkaflokkurinn hafa stjórnað með tilstilli tveggja minni flokka, Miðflokksins og Framsóknar.

Kaj Leo hefur verið lögmaður síðan 2008, eða í tvö kjörtímabil samfleytt, en sigur hans í þingkosningunum árið 2011 markaði merkileg tímamót í Færeyjum því hann styrkti stöðu sína. Það hafði ekki gerst frá árinu 1948 að lögmaður og flokkur hans bættu við sig fylgi í kosningum eftir að hafa setið í eitt kjörtímabil.

Sjálfur er Kaj Leo skipstjóri og var lengi vel þekktur knattspyrnumaður sem lék með færeyska landsliðinu.

Hann stærir sig af því að hafa leitt Færeyjar út úr langvarandi krepputíð og úthýst atvinnuleysi að verulegu leyti.

„Fyrir bara fáum árum var kreppa," sagði hann í ræðu sinni á Ólafsvöku nú í sumar. „En nú hefur gæfan snúist okkur í hag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×