Innlent

Fær ekki að halda hundinum sem vakti hana í eldsvoða

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Kristín Inga og Óliver eru mjög náin.
Kristín Inga og Óliver eru mjög náin. Vísir/Pjetur/Bryndís
Kristín Inga Ármannsdóttir sefur fast en hundurinn hennar gafst ekki upp á að reyna að vekja hana þegar eldur kviknaði í blokkinni þeirra að Írabakka. Kristín segir hundinn hafa bjargað sér en nú þarf hún að öllum líkindum að gefa hann frá sér vegna þess að íbúðin er óíbúðarhæf eftir eldinn og þarf hún því að flytja í íbúð þar sem ekki er leyfilegt að halda hund.

Íbúum að Írabakka 16, sem er í eign Félagsbústaða hf, var sagt frá því í dag að allar líkur væru á því að íkveikja hefði komið af stað eldsvoða í húsinu í vikunni líkt og Vísir hefur greint frá. Miklar skemmdir hlutust af eldsvoðanum, stigagangur hússins er illa farinn og reykskemmdir eru í íbúðum hússins.

Sjá einnig: Einn á slysadeild eftir að eldur kviknaði í Írabakka

Þá var íbúum og aðstandendum þeirra greint frá því í gær að ungur maður hefði sést á myndbandsupptöku úr myndavél í anddyri hússins rétt áður en eldurinn fór af stað. Á myndbandinu sást hann með kveikjara í hendi að sögn eins íbúa hússins.

Eldurinn átti upptök sín í anddyri hússins. Vísir/Pjetur
„Fólk er hrætt við að þessi einstaklingur gangi laus. Hann þarf klárlega að fá hjálp, það hlýtur einhver að vera rosalega mikið veikur að gera svona lagað,“ segir Bryndís Árný Kristínardóttir. Móðir hennar er fyrrnefnd Kristín Inga; eldsvoðinn hefur haft mikil áhrif á líf hennar.

„Ég fer að sofa klukkan hálftólf en ég sef mjög fast. Svo vakna ég við það um hálftvö að hundurinn er að bíta mig, hann klóraði mig og beit mig svona laust. Hann er alls ekki vanur að gera það, hann er mjög ljúfur og góður,“ segir Kristín Inga Ármannsdóttir beðin um að lýsa hinni örlagaríku nótt. „Ég segi hættu en hann linnir ekki látum.“ Hundur Kristínar heitir Óliver og er af tegundinni chihuahua.

Geymsla Kristínar varð illa úti.Vísir/Bryndís
„Þegar ég stend upp þá heyri ég konu kalla að það sé kviknað í. En þegar ég opnaði hurðina að íbúðinni þá kom bara reykur framan í mig, reykurinn hafði fyllt allan stigaganginn.“ Kristínu var bjargað út um glugga og fer hún fögrum orðum um slökkviliðsmennina sem aðstoðuðu íbúa hússins þessa nótt.

Einn íbúi Írabakka var fluttur á spítala eftir eldsvoðann en alls fjórtán þurfti að bjarga úr húsinu.

Kristínu brá að heyra það að allt benti til þess að um íkveikju hefði verið að ræða. „Mér finnst það bara agalegt. Hver gerir svona? Ég var bara það heppin að ég á lítinn tjúa hund; hann bjargaði mér. Nú á ég að fara í aðra íbúð en mig kvíðir svolítið fyrir því því að ég má ekki hafa hundinn minn hjá mér.“

Sjá einnig: Eldsvoðinn á Írabakka: Sá hvernig svartur reykurinn smaug í gegnum hurðina

Bryndís dóttir hennar hefur áhyggjur af þessari þróun, hún segir móður sína vera skelkaða eftir atvikið og að hún vakni upp með andfælum á nóttunni. Bryndís varð fyrir nokkru tjóni af völdum eldsvoðans þar sem hún hafði vegna flutninga geymt kassa í geymslu móður sinnar. „Geymslan hennar mömmu var þar sem eldurinn kviknaði. Allar teikningar og allt annað eftir börnin mín síðan í leikskóla er bara farið. Það er ónýtt af sóti, reyk og bleytu. Þetta er bara ömurlegt. Ég hafði safnað öllu í kassa frá þeim, þær eru sex og átta ára í dag,“ segir Bryndís.

Kristín hefur búið hjá Bryndísi síðan eldurinn varð en sama gildir um nær alla aðra íbúa hússins; þeir hafa leitað til vina og vandamanna þar til íbúðirnar á Írabakka verða hreinsaðar eða þar til íbúunum verða úthlutaðar nýjar íbúðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×