Innlent

Einn á slysadeild eftir að eldur kviknaði í Írabakka

Gissur Sigurðsson skrifar
Bjarga þurfti fjórtán manns af svölum blokkarinnar.
Bjarga þurfti fjórtán manns af svölum blokkarinnar.
Einn var fluttur á slysadeild og fjórtán manns var hjálpað niður af svölum eftir að eldur kviknaði á geymslugangi í kjallara undir þriggja hæða fjölbýlishúsi við Írabakka í Breiðholti á öðrum tímanum í nótt.

Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út og þegar fyrstu liðsmennirnir komu á vettvang lagði þykkan svartan reyk upp úr kjallaranum og upp allan stigaganginn. Reykkafarar fóru þegar niður í kjallarann og réðust gegn eldinum, en aðrir liðsmenn 
reistu  stiga utan á húsinu og ferjuðu fólk niður af svölum og gekk það áfallalaust.

Strætisvagn var kallaður á vettvang þar sem fólkið komst í skjól og naut aðstoðar fólks frá 
rauða krossinum .

Einhver reykur barst inn í næsta stigagang, en íbúar þar þurftu ekki að yfirgefa híbýli sín. Rafmagn fór af þessum 
tveimur  stigagöngum.

Slökkvistarfið sjálft gekk vel en það var ekki fyrr en á fjórða tímanum sem slökkviliðsmenn 
höfðu  lokið við að reykræsta íbúðirnar sex, sem eru í stigaganginum. Íbúarnir þurftu að gista  annars staðar  í nótt.

Ljóst er að mikið 
tjón  hefur orðið, einkum af völdum sóts, og er mikið hreinsunarstarf  fram undan . Eldsupptök eru ókunn, en samkvæmt heimildum fréttastofu er ekki útilokað að eldurinn hafi  kviknað  af mannavöldum. Lögregla rannsakar nú málið.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×