Innlent

Fæðingar viðhalda ekki þjóðfélaginu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Fæðingar voru alls 4.292 og 4.363 börn fæddust á Íslandi á árinu 2014. Þetta kemur fram í nýrri Fæðingarskráningu Íslands sem Landlæknisembættið hefur yfirumsjón með.

Fjöldinn er svipaður og árið 2013. Þá hafði fæðingum fækkað talsvert frá árinu 2010 en aldrei hafa fæðst fleiri börn á Íslandi en árið 2009 þegar 5.015 börn fæddust. Fjöldi fæðinga á konu reiknaðist 1,93 á árinu 2014 en 2,1 er sú fæðingartíðni sem þarf til að viðhalda sömu þjóðfélagsstærð.

Tíðni keisaraskurða þetta ár var 15,6 prósent og tíðni áhaldafæðinga 7,9 prósent. Tíðni burðarmálsdauða var 4,3 á hver 1.000 fædd börn, þegar öll börn fædd andvana eftir 22 vikna meðgöngu eru talin með.

Árið 2014 voru átta staðir á Íslandi með áætlaðar fæðingar og átta konur fæddu á leið á fæðingarstað. Kvennadeild Landspítalans er langstærsti fæðingarstaðurinn en þar voru tæplega þrjár af hverjum fjórum fæðinga á árinu. Fleiri konur fæddu utan sjúkrastofnana, 93 konur eða 2,2 prósent en þær voru 81 árið á undan.

Fjölburafæðingar voru 71 og voru þær allar tvíburafæðingar. Hlutfall tvíbura, sem fæðst hafa eftir glasafrjóvganir, hefur lækkað á undanförnum árum. 

Árið 2013 höfðu 10,3 prósent þeirra tvíbura sem fæddust orðið til með hjálp glasafrjóvgunar sem er mun lægra hlutfall en undanfarin ár. Ekki eru aðgengilegar upplýsingar um þetta hlutfall fyrir árið 2014. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×