Innlent

Faðir Sigmundar Davíðs: Guðni valdi tímasetningu sína til árása á formanninn vel

Birgir Olgeirsson skrifar
Gunnlaugur M. Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs.
Gunnlaugur M. Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs. Vísir
Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, valdi tímasetningu sína til árása á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, vel. Þetta er mat föður Sigmundar Davíðs, Gunnlaugs M. Sigmundssonar, fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins, á stöðunni sem er uppi í Framsóknarflokknum eftir að Guðni segir í samtali við Fréttablaðið í dag að verði Sigmundur Davíð áfram formaður geti það skaða Framsóknarflokkinn.

Guðni vill að hann Sigmundur víki sem formaður því óttast er að þau mál sem urðu til þess að Sigmundur fór frá sem forsætisráðherra í apríl síðastliðnum muni yfirskyggja alla kosningabaráttu og skaða árangur flokksins í kosningunum. Segir Guðni frið ríkja um Sigurð Inga á meðan spjótin standa að Sigmundi Davíð. Sigurður Ingi yrði því betur til þess fallinn að leiða flokkinn sem formaður að mati Guðna.

„Við skulum segja að Guðni hafi valið tímasetningu sína til árása á formanninn vel til að reyna að skaða hann sem mest,“ segir Gunnlaugur en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Orð Guðna Ágústssonar hafa mikið vægi innan Framsóknarflokksins. Hann hefur verið einn áhrifamesti maður Framsóknarflokksins síðustu þrjátíu og fimm ár. Hann settist fyrst inn á þing fyrir flokkinn árið 1986 sem varaþingmaður og sat á þingi til ársins 2008 þegar hann lét af störfum sem formaður flokksins.


Tengdar fréttir

Guðni segir Sigmund geta skaðað Framsóknarflokkinn

Fyrrum formaður Framsóknarflokksins sagði af sér árið 2008 til að gæta hagsmuna flokksins. Hann telur hneykslismál formanns flokksins geta verið sem myllusteinn um háls flokksins í komandi kosningabaráttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×