Innlent

Facebook-leikir eru skýrt brot á reglum

Brot á reglum? Margir leikir á Facebook eru brot á notendareglum og geta fyrirtæki átt von á að síðum þeirra verði lokað.fréttablaðið/ap
Brot á reglum? Margir leikir á Facebook eru brot á notendareglum og geta fyrirtæki átt von á að síðum þeirra verði lokað.fréttablaðið/ap
Mikið hefur borið á svokölluðum Facebook-leikjum undanfarið þar sem íslensk fyrirtæki gefa notendum færi á að vinna vörur fyrir „kvitt“ og „like“. Slíkt er brot á reglum Facebook. Verslunin Karen Millen fékk 2.500 „like“ á einum degi.

Leikir á Facebook þar sem notendur eiga að ýta á „like“ og deila myndum frá fyrirtækjum til þess að vinna vörur eða þjónustu eru skýrt brot á notendareglum Facebook. Slík fyrirtæki geta átt von á því að stjórnendur vefsins loki fyrir síðuna og þar með glatast allt það efni sem á henni var.

Samskiptavefurinn hefur verið vinsæll vettvangur fyrirtækja til að koma vörum sínum og þjónustu á framfæri undanfarin misseri. Kápuleikur verslunarinnar Karen Millen á Íslandi fór líklega ekki fram hjá mörgum skráðum notendum á mánudaginn síðastliðinn, en fyrirtækið fékk um 2.500 „like“ á síðuna sína á einum degi.

Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar/TBWA, þekkir fjölmörg dæmi þar sem íslensk fyrirtæki hafa hvatt notendur Facebook til að nota „like“, „kvitt“ og „deila“ í þeim tilgangi að vinna eitthvað, en hafi verið lokað í framhaldinu.

„Þeir sem eru með svona leiki eiga það á hættu að notendur klagi þá til Facebook, sem er bara einn takki. Og það þarf ekki nema nokkrar tilkynningar til að síðunni verði lokað,“ segir Valgeir, en Pipar/TBWA sér meðal annars um að setja leiki upp í „app“ með skráningarkerfi fyrir fyrirtæki, sem brýtur ekki í bága við reglur síðunnar. Þá er hringt í vinningshafa í framhaldinu eða honum sendur tölvupóstur. „Svo er fullt af fyrirtækjum sem búa til svona leiki en draga svo ekki þátttakendur úr. Þú veist aldrei hvort einhver vinnur eða ekki.“

Hulda Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Karen Millen, segir kápuleikinn svokallaða hafa farið fram úr björtustu vonum. Engum hafi dottið í hug að verslunin væri að brjóta í bága við reglur, þar sem fjölmörg íslensk fyrirtæki væru að gera nákvæmlega það sama.

„Það grunaði engan að þetta færi svona,“ segir Hulda. „En við lærum af þessu og munum ekki gera þetta svona næst.“ Hulda ætlar að draga vinningshafann út úr öllum vinum síðunnar, en 2.500 manns ákváðu að líka við Karen Millen á mánudag.

sunna@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×