Innlent

Fá leyfi til að rannsaka virkjun í Skaftá og Tungufljóti

Orkustofnun hefur veitt Suðurorku rannsóknarleyfi vegna 150 megavatta virkjunar í Skaftá og Tungufljóti í Skaftártungu. Undirbúningur miðast við að framkvæmdir geti hafist eftir þrjú ár.

Þetta yrði stærsta virkjun í Skaftafellssýslum en í sveitarfélaginu Skaftárhreppi er nú unnið að gerð aðalskipulags þar sem gert er ráð fyrir virkjun þessara fljóta með svokallaðri Búlandsvirkjun. Skipulagsdrögin útiloka jafnframt eldri hugmyndir um að veita Skaftá yfir í Langasjó og beisla orku hennar í virkjunum á Tungnaár- og Þjórsársvæði.

Rannsóknarleyfi sem Suðurorka hefur nú fengið miðast við virkjun rétt ofan efstu bæja í Skaftártungu. Skaftá yrði stífluð neðan Hólaskjóls og henni veitt um göng í nýtt lón á Þorvaldsaurum við Réttarfell, þar sem stöðvarhúsið yrði. 40 prósentum af rennsli Tungufljóts yrði náð með tveimur stíflum þar.

Vatninu yrði síðan skilað til Skaftár um frárennslisgöng sem kæmu út við bæinn Búland. Suðurorka er í eigu Íslenskrar orkuvirkjunar og HS Orku. Rannsóknarleyfið miðast við að kanna hagkvæmni þessarar virkjunar en síðan þarf að fara í umhverfismat og fá bæði virkjana- og framkvæmdaleyfi.

Guðmundur Valsson, verkefnisstjóri Suðurorku, segir undirbúning þó miðast við að framkvæmdir geti hafist eftir þrjú ár og að virkjunin verið tilbúin árið 2016, að því gefnu að kaupandi fáist að orkunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×