Erlent

Eyddu skrifstofufé ráðherra á kynlífsklúbbi

Atli Ísleifsson skrifar
Yoichi Miyazawa, viðskiptaráðherra Japans.
Yoichi Miyazawa, viðskiptaráðherra Japans. Vísir/AFP
Nýr viðskiptaráðherra Japans á nú í vök að verjast eftir að í ljós kom að stuðningslið hans hafi eytt skrifstofufé ráðherrans á kynlífsklúbbi.

Yoichi Miyazawa hefur viðurkennt að starfsfólk hans hafi sótt kvalalosta- og sjálfspíslahvatarklúbb í borginni Hiroshima en lagði áherslu á að hann hafi sjálfur ekki sótt klúbbinn.

Málið kemur upp á slæmum tíma fyrir forsætisráðherrann Shinzo Abe en tveir ráðherrar í ríkisstjórn hans sögðu af sér í upphafi vikunnar vegna fjármögnunarhneykslis.

Meðlimir í Miyazawa-kai, sem er lýst sem pólitískur stuðningshópur sem fer með fjármuni ráðherrans, eyddu 18.230 jenum, eða um 20 þúsund krónur á klúbbnum, í september 2010.

Í ársskýrslu hópsins var upphæðin færð til bókar undir liðnum „skemmtunarútgjöld“. Segir Miyazawa að hann muni gera breytingar á ársreikningnum þar sem starfsmaður skrifstofunnar hafi „ranglega fært útgjöldin til bókar“.

Í frétt BBC kemur fram að japanskir fjölmiðlar lýsi klúbbnum sem um ræðir sem stað þar sem konur í nærfötum einum klæða eru á sviði og þær bundnar og flengdar með svipum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×