Innlent

ESB tillaga stefnir þingstörfum í uppnám

Höskuldur Kári Schram skrifar
Evrópusinnar undirbúa nú mótmælaaðgerðir vegna boðaðrar tillögu ríkisstjórnarinnar um að slíta aðildarviðræðum við ESB. Formaður þingflokks Bjartrar framtíðar segir að tillagan stefni þingstörfum í uppnám.

Ríkisstjórnin hefur boðað nýja tillögu um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og verður tillagan væntanlega lögð fram á næstu vikum.

Kannanir sýna að mikill meirihluti landsmanna vill klára viðræðurnar en einungis þriðjungur er hins vegar hlynntur inngöngu.

Róbert Marshall, formaður þingflokks Bjartrar framtíðar, segir viðbúið að tillagan muni mæta harðri andstöðu á Alþingi.

„Tillagan mun setja allt í uppnám á þinginu. Alveg eins og gerðist fyrir ári. Ég skil ekki afhverju ríkisstjórnin ætlar að gera þetta. Þetta er bara umsóknarferli sem liggur í dvala. Það er engin pressa, hvorki á þeim né á Evrópusambandinu, að gera nokkuð og það er alveg hægt að láta þetta bíða inn á næsta kjörtímabil og kjósa um þetta í næstu kosningum,“ segir Róbert.

Jón Steindór Valdimarsson, formaður Já Íslands samtaka Evrópusinna, segir að boðað verði til mótmæla ef ný tillaga lítur dagsins ljós.

„Ég geri fastlega ráð fyrir því að við munum bregðast við með kröftugum hætti. En ég er ennþá að reyna að halda í þá von að þessi tillaga komi ekki fram en við verðum að reikna með því og það verður tekið á móti,“ segir Jón Steindór. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×