Skoðun

ESB ákveður leyfilegan heildarafla

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson skrifar
Ef til inngöngu Íslands í Evrópusambandið kæmi yrði sú meginbreyting á umhverfi íslenska kvótakerfisins að ákvarðanir um leyfilegan heildarafla íslenskra útgerða yrðu teknar af ráði landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra ESB-ríkjanna í Brussel. Í þessu fælist framsal á valdi sem íslenska ríkið fer með í dag.

Í Evrópusambandinu er veiðiheimildum skipt milli aðildarríkja ESB samkvæmt meginreglunni um hlutfallslegan stöðugleika. Reglan felur í sér að hlutdeild hvers ríkis í leyfilegum hámarksafla skuli byggjast á veiðireynslu þess á tilteknum fiskistofnum en einnig er tekið tillit til svæða sem eru sérstaklega háð fiskveiðum. Þannig eiga veiðar einstakra ríkja að haldast hlutfallslega stöðugar til langs tíma.

Hvert aðildarríki fyrir sig ákveður síðan, í samræmi við sína eigin löggjöf, hvernig það ráðstafar þeim aflaheimildum sem í hlut þess koma. Íslenska kvótakerfið mundi því ekki taka grundvallarbreytingum sem slíkt þótt Ísland gengi í ESB. Ákvarðanir um breytingar á kvótakerfinu yrðu eftir sem áður í höndum íslenskra stjórnvalda.

Þótt aðildarríkin hafi að meginstefnu sjálfstæði um það hvernig þau úthluta sínum landskvóta eru þeim þó ýmis takmörk sett því ákvarðanir aðildarríkjanna mega ekki brjóta í bága við almennar reglur sambandsins. Evrópusambandið getur þannig í vissum tilfellum sett tæknilegar sóknartakmarkanir á einstök mið, til dæmis með því að banna eða takmarka heimildir til veiða með ákveðnum veiðarfærum. Þá getur sambandið einnig sett reglur er varða uppbyggingu eða endurreisn fiskistofna sem hafa verið ofveiddir og aðildarríkjunum er gert að fara eftir.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×