Skoðun

Eru jöfn kynjahlutföll til skemmtunar?

Guðrún Halla Finnsdóttir skrifar

Opið bréf til forsætisráðherra.

Kæri Sigmundur Davíð, forsætisráðherra Íslands.

Um mig fór ónotahrollur þegar ég las um viðbrögð þín við kynjahlutfalli nýskipaðra nefnda Alþingis. Ekki nóg með það að ENGIN kona sé í efnahags- og viðskiptanefnd heldur virðist forsætisráðherra það ásættanlegt, en að það sé „alltaf skemmtilegra ef nefndir eða aðrir hópar fólks samanstanda af fólki úr ólíkum áttum, með ólíka reynslu og af sitt hvoru kyninu“. Skemmtilegra.

Nú er minna en mánuður síðan ríkistjórnin var valin og svar þitt við athugasemdum um ójafnan hlut kynjanna í henni var svipað: „Auðvitað er alltaf skemmtilegast að hafa sem jafnast[an] hlut kynjanna.“ Skemmtilegast. Ekki nóg með að það gæti verið skemmtilegra að jafna hlut kynjanna, þá eru lög sem eiga að tryggja slíkt. Kannski væri skemmtilegra að fara að lögum.

Ég bý í Bandaríkjunum um þessar mundir og er oft spurð að því hvort það sé rétt að Ísland sé besta land í heimi fyrir konur. Ég svara því stolt að svo sé og að Bandaríkin gætu lært margt af Íslandi. Hins vegar skammast ég mín mikið fyrir það að núverandi forsætisráðherra þyki það ekki óásættanlegt að engin kona sé í efnahags- og viðskiptanefnd. Íslendingar geta verið stoltir af því hversu vel þeim hefur tekist að jafna rétt kynjanna, en það þýðir ekki að hægt sé að slaka á kröfunum. Þar sem þú situr í ráðherranefnd um jafnréttismál, sem lýsir einu af sínum helstu verkefnum sem eftirfylgni með jafnréttismálum, þá finnst mér frammistöðu þinni ábótavant.

„Auðvitað er æskilegra að það sé miklu meiri blöndun. Það hlýtur að vera stefna allra að reyna að koma því á.“ Hvernig stendur á því að þér finnist það vera æskilegt en ekki nauðsynlegt? Ef það „hlýtur að vera stefna allra“, er það stefna þín? Því það lítur svo sannarlega ekki út fyrir að vera svo. Ef það er hins vegar stefna þín, hvernig nákvæmlega ætlarðu að bregðast við núverandi stöðu sem forsætisráðherra, flokksformaður, og þingmaður?

Tilvitnanir eru teknar úr fréttum af visir.is og ruv.is.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×