Viðskipti innlent

Eru ekki til tals um raflínu yfir hálendið

Það var kannski táknrænt að langt var á milli forstjóra Landsnets og formanns Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrirspurnatíma vorfundarins í gær.
Það var kannski táknrænt að langt var á milli forstjóra Landsnets og formanns Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrirspurnatíma vorfundarins í gær. mynd/hreinn magnússon
„Hvað varðar lagningu háspennulínu yfir hálendi Íslands, næst aldrei sátt við ferðaþjónustuna um það,“ sagði Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, á vorfundi Landsnets í gær þar sem fjallað var um stöðu flutningskerfis raforku á Íslandi og nýjar áherslur Landsnets í því samhengi.

Nýjar áherslur

Landsnet kynnti á fundinum nýjar áherslur til að þróa og viðhalda flutningskerfi raforku, í sátt við samfélag og umhverfi. „Landsnet er að taka upp breytt verklag með skýrari sýn á samfélagsábyrgð fyrirtækisins sem felst m.a. í enn meira samráði á fyrstu stigum fyrirhugaðra framkvæmda og stofnun þverfaglegra samráðshópa. Samtímis verður öll greiningarvinna efld enn frekar með það að markmiði að finna bestu framkvæmanlegu lausnirnar á hverjum tíma,“ segir í fréttatilkynningu fyrirtækisins.

Staðreynd sem blasir við

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, minnti á það í erindi sínu sem fyrir löngu er öllum ljóst – styrkja þarf flutningskerfið enda svarar byggðalínan sem lögð var fyrir fjórum áratugum engan veginn kalli tímans. Fjárfesting upp á 70 til 100 milljarða næsta áratuginn er nauðsynleg til að mæta væntingum og kröfum í samfélaginu, að hans sögn. Tenging sterks dreifikerfis suðvesturhornsins við önnur landsvæði verði að skoðast í því ljósi að gríðarleg verðmæti fari forgörðum á ári hverju að óbreyttu. Það eru þrír til tíu milljarðar á ári, er mat Landsnets, en flutningstakmarkanir koma í veg fyrir staðsetningu meðalstórra fyrirtækja úti á landi, svo ekki sé nefnt orkuöryggi sem kemur öllum landslýð og fyrirtækjum við – líka ferðaþjónustunni.

Tvær leiðir

Til að gera þetta eru tvær leiðir færar; hálendisleið, eða lögn línu yfir Sprengisand, eða byggðaleið – uppbygging byggðalínunnar þar sem hún liggur hringinn í kringum landið. „Að hafna hálendisleiðinni er að velja hina,“ sagði Guðmundur Ingi. Svo einföld er þessi mynd.

Hvað hálendisleiðina varðar er hún þrískipt; loftlína alla leið. Loftlína með allt að 50 kílómetra jarðstreng. Síðasti kosturinn er jarðstrengur alla leið með svokallaðri jafnstraumstækni – en hún er varla raunhæf lausn nema í tengslum við sæstreng til Bretlands, sagði Guðmundur en eins og þekkt er virðist það verkefni neðarlega í verkefnabunka stjórnvalda þrátt fyrir að Landsvirkjun hafi lagt töluverða vinnu í að þoka málinu áfram.

Rammaáætlun ferðaþjónustunnar

Skilaboð Gríms Sæmundsen á fundinum urðu hins vegar ekki misskilin. Ferðaþjónustan er til tals um lagningu jarðstrengs yfir hálendið, en í raun ekkert annað eins og að framan greinir. Hann sagði jafnframt að mikilvægi ferðaþjónustunnar í efnahagslegu tilliti væri slíkt í dag að stórar ákvarðanir er varða náttúruna sem auðlind verði eftirleiðis að taka með hagsmuni greinarinnar að leiðarljósi. Nefndi hann vinnu við rammaáætlun, eða áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, í því samhengi síðastliðin 15 ár.

„Það er kominn tími til að settur sé verðmiði á þau óefnislegu gæði sem í ósnortinni íslenskri náttúru felast,“ sagði Grímur og gerði að tillögu sinni að áætlun til verndar og nýtingar landsvæða verði í framtíðinni gerð á forsendum íslenskrar ferðaþjónustu – eða um „rammaáætlun ferðaþjónustunnar“ verði að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×