Skoðun

Erasmus-áætlunin 25 ára

Ásgerður Kjartansdóttir og Guðmundur Hálfdánarson skrifar
Tuttugu og fimm ára afmæli Erasmus-áætlunarinnar er haldið hátíðlegt um Evrópu alla í ár, en hún er hluti af menntaáætlun Evrópusambandsins á háskólastigi. Rúmlega 2.500 íslenskir háskólastúdentar hafa tekið hluta af námi sínu við evrópska háskóla á vegum hennar, en íslenskir háskólar fengu aðild að Erasmus-áætluninni árið 1992. Á síðustu árum hafa að meðaltali um 200 íslenskir stúdentar farið utan á hverju ári. Skólaárið 2010-2011 voru yfir 500 erlendir Erasmus-stúdentar við nám í íslensku háskólum og er það metfjöldi.

Fjölmargir viðburðir hafa verið skipulagðir víða í Evrópu í tilefni afmælisins. Hér á landi var haldið upp á þessi tímamót á Háskólatorgi Háskóla Íslands og í Iðnó hinn 6. september sl. auk þess sem efnt var til ljósmynda- og myndbandasamkeppni núverandi og fyrrverandi Erasmus-nema sem tengjast Íslandi.

Frá 1987 hafa tæpar þrjár milljónir háskólastúdenta og yfir 300.000 háskólakennara tekið þátt í áætluninni og er óhætt að fullyrða að hún er ein vinsælasta og best heppnaða samstarfsáætlun Evrópusambandsins og jafnframt sú stærsta sinnar tegundar í heimi. Markmið hennar er að auka samstarf háskóla í Evrópu. Megináhersla er lögð á að stuðla að hreyfanleika fólks úr háskólasamfélaginu um álfuna en einnig eru veittir styrkir til sameiginlegra námskeiða, þróunar kennsluefnis, samstarfs háskóla og atvinnulífs og tungumálanámskeiða fyrir skiptistúdenta. Á síðustu árum hafa yfir 250.000 háskólanemendur og 40.000 kennarar tekið þátt í þessu samstarfi.

Mikil áhrif

Úttektir á Erasmus-áætluninni hafa leitt í ljós að hún hefur haft mikil áhrif, ekki bara á einstaklinga sem hafa tekið þátt í henni heldur líka á háskólaumhverfið í Evrópu. Áætlunin hefur stutt við Bologna-ferlið sem miðar að því að skapa samfellt menntasvæði á háskólastigi í Evrópu. Frá 1999 hefur hún t.d. stutt evrópska háskóla í að innleiða ECTS-einingarkerfið. Nánast allar stofnanir á háskólastigi í Evrópu taka þátt í Erasmus eða rúmlega 3.100 háskólar í 31 landi.

Frá árinu 2007 hefur Erasmus verið hluti af menntaáætlun ESB (Lifelong Learning Programme 2007-2013) en um þessar mundir er verið að undirbúa nýjar samstarfsáætlanir ESB fyrir tímabilið 2014-2020. Nýja menntaáætlunin fær að öllum líkindum nafnið Erasmus fyrir alla og mun fela í sér aukin tækifæri fyrir ungt fólk og menntastofnanir í Evrópu.

Frekari upplýsingar:

http://ec.europa.eu/education/lifelong-learning-programme/erasmus_en.htm

http://ec.europa.eu/education/erasmus/25thanniversary_en.htm

og

http://lme.is/page/erasmus_forsida

http://lme.is/page/erasmus25ara




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×