Enski boltinn

Enska knattspyrnusambandið rannsakar samskipti Mackay og Moody

Malky Mackay á hliðarlínunni fyrir áramót.
Malky Mackay á hliðarlínunni fyrir áramót. Vísir/Getty
The Daily Mail greindi frá því seint í gærkvöldi að Malky Mackay mun ekki taka við liði Crystal Palace eftir að það fundust heldur ósmekkleg skilaboð á milli Mackay og fyrrverandi samstarfsfélaga hans hjá Cardiff, Iain Moody.

Voru þessi samskipti á milli Mackay og Moody sem var á sínum tíma yfirmaður leikmannaleitar Cardiff þegar þeir störfuðu saman hjá velska félaginu.

Stýrðu þeir félagarnir Cardiff upp í úrvalsdeildina í fyrsta sinn í sögu félagsins áður en Vincent Tan, eigandi félagsins, sagði upp samningum þeirra á síðasta tímabili.

Moody fékk fljótlega starf hjá Crystal Palace í efstu deild sem yfirmaður knattspyrnumála og eftir að Tony Pulis hætti með liðið á dögunum virtist allt benda til þess að Mackay myndi taka við knattspyrnustjórastöðunni hjá liðinu.

Það hefur hinsvegar komið í ljós að enska knattspyrnusambandið er að rannsaka mál varðandi Mackay og Moody fyrir að hafa sent afar ósmekkleg skilaboð á milli sín á sínum tíma. Í þessum skilaboðum var mikið um hommahatur, kynþáttahatur og niðrandi orð í garð kvenna. Var ísraelska félagið Maccabi Tel Aviv einfaldlega kallað „gyðingarnir“.

Enska knattspyrnusambandið fann á heimili Moody alls 70.000 sms skilaboð ásamt 100.000 tölvupóstum sem hafa verið teknir skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×