Erlent

Enn slegist á þinginu í Tyrklandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá þinginu í dag.
Frá þinginu í dag. Vísir/AFP
Tvær þingkonur voru fluttar á börum út af tyrkneska þinginu í dag eftir að til átaka kom á milli þingmanna. Átökin voru á milli stuðningsmanna Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, og andstæðinga sem mótmæltu frumvarpi sem mun auka vald forsetaembættisins mikið.

Óháða þingkonan Aylin Nazliaka handjárnaði sig við hljóðnemann í pontunni á þinginu í dag og sagði það gert í mótmælum gegn því að handjárna ætti þingið.

Stjórnarþingkonur reyndu að fjarlægja hana og þá komu þingkonur stjórnarandstöðunnar henni til aðstoðar. Samkvæmt AFP fréttaveitunni var slegist í þinginu.

Erdogan hefur á undanförnum árum gjörbylt stjórnkerfi landsins og ekki síðan í stjórnartíð Mustafa Kemal Atatürk á árunum fyrir seinna stríð, hefur einn maður verð eins ráðandi í tyrkneskum stjórnmálum og þjóðfélagsumræðu.

Frá hinu misheppnaða valdaráni í sumar hefur Erdogan þaggað niður í gagnrýnendum sínum og staðið fyrir umfangsmiklum hreinsunum í tyrkneska hernum og meðal embættismanna, kennara og fjölmiðla.

Meðal annars fela umræddar breytingar í sér að þinginu verður ekki lengur kleift að rannsaka ráðuneyti og ríkisstjórn Tyrklands.

Hér má sjá myndband sem sýnir aðdraganda slagsmálanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×