Innlent

Enginn þrýstingur á utanríkisráðherra að slíta ESB viðræðum

Heimir Már Pétursson skrifar
Óþreyja ríkir meðal hörðustu andstæðinga ESB innan Sjálfstæðisflokksins sem þrýsta á forystu flokksins að beita sér fyrir slitum aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
Óþreyja ríkir meðal hörðustu andstæðinga ESB innan Sjálfstæðisflokksins sem þrýsta á forystu flokksins að beita sér fyrir slitum aðildarviðræðna við Evrópusambandið. vísir/daníel
Utanríkisráðherra segist ekki finna fyrir neinum þrýstingi frá samstarfsflokknum í ríkisstjórn um að leggja fram að nýju þingsályktunartillögu um að Ísland slíti aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Hörðustu andstæðingar Evrópusambandsins innan Sjálfstæðisflokksins brýna forystu flokksins til að knýja á um slit viðræðnanna.

Þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar um slit aðildarviðræðna við Evrópusambandið sem lögð var fram á Alþingi í febrúar dagaði uppi í meðförum þingsins. Undanfarið hefur orðið vart mikillar óþreyju í þessum efnum meðal hörðustu Evrópusambandsandstæðinga Sjálfstæðisflokksins, sem birtist m.a. í púkanum á fjósbita Morgunblaðsins, Staksteinum, í gær. En þar er haft eftir Styrmi Gunnarssyni fyrrverandi ritstjóra blaðsins að breski Íhaldsflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eigi það sameiginlegt að í báðum flokkum sé grasrótin neikvæðari í garð aðildar að Evrópusambandinu en forystan.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn haustið 2015 og Styrmir segir að nú  bíði sú grasrót, sem komi saman á tveggja ára fresti á landsfundum Sjálfstæðisflokksins eftir því að forystusveit flokksins í ríkisstjórn og á Alþingi fylgi eftir ítrekuðum samþykktum landsfunda, sem séu æðsta vald í málefnum Sjálfstæðisflokksins.

Styrmir spyr: Hvenær kemur þingsályktunartillagan um að draga aðildarumsóknina til baka fram á Alþingi? Og við spurðum utanríkisráðherra þeirrar spurningar.

Ertu með slíka tillögu í skúffunni hjá þér?

„Ég hef ekkert útilokað að leggja slíka tillögu fram og staðan er nákvæmlega eins,“ segir utanríkisráðherra. Það hafi ekkert breyst að hans hálfu og hann sé tilbúinn til að leggja þessa tillögu fram hvenær sem er ef á þurfi að halda.

Finnur þú fyrir þrýstingi frá samstarfsflokknum um að gera það og auðvitað frá mörgum Framsóknarmönnum?

„Ég finn ekki fyrir neinum þrýstingi um að gera það, nei,“ segir Gunnar Bragi.

Birgir Ármannsson.vísir/stefán
Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir það hafa legið fyrir við þinglok í vor að óbreytt eða breytt tillaga um slit viðræðna kynni að verða lögð fram aftur. Þá séu þessi mál á málaskrá utanríkisráðherra sem lögð var fram nú í haust.

Eru menn hálf lamaðir í þessu máli eftir það hvernig þessi tillaga endaði í þinginu síðast?

„Það er auðvitað þrýstingur í allar áttir eins og menn þekkja og hefur komið fram á opinberum vettvangi. Hins vegar hefur umræðan um þessi mál auðvitað verið miklu minni  að undanförnu. Enda sjá menn það svosem að Ísland er ekkert á leið í Evrópusambandið í bili. Hins vegar hvort menn velji þá leið sem lagt var upp með í fyrravetur að slíta formlega viðræðuferlinu, draga umsóknina formlega til baka, eru auðvitað sjónarmið sem eru sterklega á lofti. En það er aftur á móti ljóst að þarna er um að ræða ákvörðun sem sameiginlega þarf að taka bæði milli (stjórnar) flokkanna og innan þeirra,“ segir Birgir Ármannsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×