Erlent

Enginn farþeganna komst lífs af

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Herflugvél af gerðinni Herkúles C-130 hrapaði í íbúðahverfi í borginni Medan en vélin skall á tveimur íbúðabyggingum og hóteli áður en hún sprakk í loft upp.
Herflugvél af gerðinni Herkúles C-130 hrapaði í íbúðahverfi í borginni Medan en vélin skall á tveimur íbúðabyggingum og hóteli áður en hún sprakk í loft upp. vísir/epa
Yfirvöld í Indónesíu hafa staðfest að 141 hafi látist í flugslysi þar í landi í gær. Herflugvél af gerðinni Herkúles C-130 hrapaði þá í íbúðahverfi í borginni Medan en vélin skall á tveimur íbúðabyggingum og hóteli áður en hún sprakk í loft upp.

Alls voru 122 um borð í sjálfri vélinni og komst enginn þeirra lífs af. Þá er talið að 19 manns í íbúðahverfinu hafi farist.

Í frétt BBC kemur fram að herinn hafi ítrekað þurft að fara yfir farþegalistann í kjölfar slyssins þar sem illa er haldið utan um farþega sem fara um borð í herflugvélar. Þá er einnig verið að athuga hvort að einhverjir farþegar hafi borgað fyrir að fljúga með vélinni en slíkt er bannað.

Ekki er vitað hvers vegna slysið varð. Sjónarvottar segja að svo virðist sem að vélin hafi lent í vandræðum stuttu eftir að hún tók á loft frá Medan en áfangastaðurinn var Tanjung Pinang, eyja skammt frá Súmötru.

 

Herflugvélin var framleidd árið 1964 og því komin til ára sinna en talsmaður hersins segist fullviss um að vélin hafi verið í góðu ásigkomulagi. Þetta er sjötta flugslysið sem verður hjá indónesíska hernum á jafnmörgum árum en margir vilja meina að gríðarleg þörf sé á að endurnýja búnað hersins þar sem hann sé mikið til úr sér genginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×