Viðskipti innlent

Endurbætur á Glerártorgi boðaðar fyrir 100 milljónir

Sveinn Arnarsson skrifar
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags
Verslunarmiðstöðin Glerártorg á Akureyri mun fá andlitslyftingu á árinu. Eik fasteignafélag ætlar að ráðast í miklar framkvæmdir á innviðum hússins með það að markmiði að gera verslunarmiðstöðina hlýlegri og meira aðlaðandi. „Við gerðum okkur grein fyrir því að við þyrftum að ráðast í framkvæmdir á húsnæðinu þegar við tókum við því,“ segir Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags.

Hluthafafundur Eikar samþykkti í janúar í fyrra að kaupa verslunarmiðstöðina Glerártorg af fyrirtækinu SMI ehf. Verslunarmiðstöðin er í heild rétt tæplega átján þúsund fermetrar að stærð. Með kaupum Eikar varð fyrirtækið eitt stærsta fasteignafélag landsins með um 270 þúsund fermetra í leigu og virði fasteigna í eigu félagsins var í janúar í fyrra um sextíu milljarðar króna.

„Við gerum okkur miklar vonir um að verslunarstarfsemi á Glerártorgi verði áfram með ágætum. Til þess að svo megi verða munum við fara í framkvæmdir við húsnæðið til þess að gera miðstöðina hlýlegri og meira aðlaðandi.“, segir Garðar Hannes. „Við ákváðum einnig fyrir jólin að gera meira í skreytingum. Þetta er liður í þeim umbreytingum sem við teljum mikilvægar fyrir verslun á svæðinu.“

Fasteignafélagið hefur boðað verslanaeigendur á sinn fund í vikunni til þess að útskýra fyrir þeim í hverju endurbæturnar eru fólgnar. „Það skiptir miklu máli að gera þetta náinni samvinnu leigutaka í verslunarmiðstöðinni og upplýsa um stöðu mála. Þessar framkvæmdir munu kosta um eitt hundrað milljónir. Um mikla andlitslyftingu er að ræða fyrir verslunarmiðstöðina. Við erum í samvinnu við arkitekta í Boston sem sérhæfa sig í hönnun verslunarmiðstöðva og hafa mikla sérþekkingu á því sviði.“

Garðar Hannes segir Glerártorg vera miðstöð verslunar á Mið-Norðurlandi og miklu máli skipti að heimamenn versli í heimabyggð svo hún geti lifað og dafnað. „Í raun helst þetta í hendur. Heimamenn gera sér grein fyrir því að verslun í heimabyggð skiptir máli. Það er svo okkar verkefni að aðstæður séu þannig að heimamenn vilji versla í heimabyggð. Á Glerártorg koma bæði íbúar Akureyrar og nærsveita til að versla og við erum mjög ánægð með þann fjölda sem heimsækir verslunarmiðstöðina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×