Sport

Endastöð fyrir Guðmund Hrafnkelsson

"Landsliðsþjálfarinn hafði samband við mig og tilkynnti mér að ég yrði ekki valinn í landsliðið fyrir mótið í Svíþjóð," segir Guðmundur Hrafnkelsson, markvörður og leikjahæsti maður íslenska landsliðsins í handbolta. Nýráðinn landsliðsþjálfari, Viggó Sigurðsson, hyggst velja lið sitt fyrir World Cup í Svíþjóð sem fram fer innan skamms og hefur þegar útilokað Guðmund. Telja margir að með þessu sé ferli þessa tæplega fertuga markvarðar endanlega lokið með landsliðinu en Guðmundur hefur undanfarið leikið með þýska liðinu Kronau-Östringen. Sigurður Sveinsson, fyrrverandi handboltahetja og samherji Guðmundar til margra ára, er sammála því mati. "Ég tel lítinn vafa leika á því að þetta táknar endalokin fyrir Guðmund vin minn í marki landsliðsins. Hitt er svo annað mál að hann á skilið að fá hvíldina enda hefur hann staðið vaktina með mikilli prýði í langan tíma. Ég tel að með þessu sé Viggó að fylgja því eftir sem hann hefur sagt að það verði breytingar á landsliði Íslands undir hans stjórn og yngri leikmenn fái að spreyta sig." Viggó Sigurðsson vildi aðspurður ekki staðfesta að hafa útilokað Guðmund frá landsliðinu í næstu keppni. "Ég tilkynni hópinn þann 11. nóvember og svara engu fyrir þann tíma. Ég er bæði búinn að skoða og ræða við fjölmarga undanfarið. Bæði þá sem hafa verið í liðinu og eins hina sem hafa ekki komið nálægt landsliðinu áður og það er allt opið eins og sakir standa." Guðmundur sjálfur er þó ekki ósáttur við að vera ekki valinn enda kappinn búinn að spila yfir 400 landsleiki á sinni tíð. "Ég hef skilað mínu með landsliðinu og þessi tilkynning kom ekkert sérstaklega á óvart. Það eru því engin sérstök vonbrigði og nú get ég einbeitt mér betur með mínu félagsliði."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×