Íslenski boltinn

Elfar Freyr: Ég ætla ekki að vera í einhverju Skype-sambandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elfar Freyr Helgason í leiknum á móti Þór en Blikar unnu þar sinn fyrsta leik í Pepsi-deildinni í sumar.
Elfar Freyr Helgason í leiknum á móti Þór en Blikar unnu þar sinn fyrsta leik í Pepsi-deildinni í sumar. Vísir/Valli
„Maður þurfti að rifja upp hvernig á að fagna sigri – það var allt gleymt og grafið,“ segir Elfar Freyr Helgason, miðvörður Breiðabliks, léttur í samtali við Fréttablaðið um fyrsta sigur liðsins í Pepsi-deildinni í sumar.

Breiðablik vann Þór, 3-1, á Kópavogsvellinum á fimmtudaginn og vann sinn fyrsta sigur þegar tíu leikir eru búnir af mótinu. Elfar Freyr átti stórleik í vörn Breiðabliks, skoraði eitt markanna og er leikmaður umferðarinnar hjá Fréttablaðinu fyrir frammistöðu sína.

„Ef einhver hefði sagt við mig fyrir tímabilið að við myndum ekki vinna leik fyrr en í 10. umferð hefði ég bara hrist hausinn. Guð minn almáttugur hvað þetta tók langan tíma. En þetta var bara skemmtilegt eins og alltaf þegar maður vinnur,“ segir Elfar Freyr.

Las blöðin á ný

Það var létt yfir Elfari þegar Fréttablaðið heyrði í honum í gær. Hann var upptekinn við að sanda og sá í Kópavogsvöll, en hann vinnur þar á daginn og æfir þar á kvöldin. Alvöru Bliki. Hann heldur sér alveg á jörðinni þrátt fyrir þennan sigur.

„Með fullri virðingu fyrir Þór þá var ekki eins og við værum að vinna FH eða KR á útivelli. Maður má ekkert missa sig yfir heimasigri á liðinu í botnsætinu sem er að spila eftir sjö tíma rútuferð,“ segir Elfar Freyr. Hvernig hefur andinn verið í liðinu á meðan hópurinn gekk í gegnum þessar erfiðu vikur?

„Menn eru jákvæðir og reyna að peppa hver annan upp. Ég er ánægður með hvernig við höfum tekist á við þetta.“

Elfar leyfði sér að glugga aftur í blöðin eftir sigurinn á miðvikudaginn. „Þegar illa gengur reynir maður að kúpla sig út úr allri umfjöllun. Maður les ekki blöðin og horfir ekki á Pepsi-mörkin. En maður leyfði sér að kíkja í blöðin í dag [gær].“





Vísir/Valli
Stutt stopp á Íslandi

Elfar hélt út í atvinnumennsku á miðju tímabili 2011 þegar hann samdi við AEK í Aþenu. Þaðan fór hann til Stabæk og svo Randers í Danmörku áður en hann kom aftur heim á miðju síðasta sumri. Stefnan er tekin aftur út strax næsta haust en af öðrum ástæðum.

„Kærastan mín er að fara í tveggja ára nám í Svíþjóð og ég ætla ekki að vera í einhverju Skype-sambandi. Ég ætla að athuga hvort það séu ekki einhver lið í B-deildinni sem vilja fá mig,“ segir Elfar Freyr sem er með klásúlu í samningi sínum sem segir að hann megi fara frítt frá Breiðabliki eftir tímabilið.

„Það mun hjálpa mér, en það er ekkert komið í gang núna. Ég mun samt selja mig ódýrt – þetta verður ekki þessi hefðbundna atvinnumennska. Ég er bara að fara að elta ástina til Svíþjóðar,“ segir Elfar Freyr Helgason kampakátur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×