Innlent

Eldhætta af lúpínu í byggð

Jón Viðar Matthíasson
„Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær það verður stórbruni þar sem lúpínan vex í miklu magni," segir Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands. „Ég veit ekki hvort fólk áttar sig á hættunni."

Í Hvítbók um náttúruvernd segir að með hlýnandi veðurfari skapist aukin hætta á tjóni af völdum bruna í náttúrunni. „Lúpína er hér sérstakt áhyggjuefni. Hún myndar miklar og þéttar breiður kringum þéttbýlisstaði, á skógræktar- og landgræðslusvæðum og í sumarbústaðalöndum."

Á haustin myndast mikil sina í lúpínubreiðum og um leið gríðarlegur eldsmatur. Mælingar sýna að um fimm til tíu tonn af þurrefni eru á hektara í lúpínusinu, sem er er tífalt það magn sem er í graslendi.

Í Hvítbókinni er varpað fram þeirri spurningu hvaða aðilar eigi að meta nauðsyn viðbragða. Full ástæða sé til að huga að setningu skýrari reglna um viðbrögð við náttúrueldum.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, deilir áhyggjum vegna þeirrar hættu sem lúpínunni fylgir. „Minni sláttur, í kjölfar hrunsins, og krafturinn í lúpínunni er áhyggjuefni," segir Jón Viðar og kastar fram þeirri hugmynd að eyða lúpínu kerfisbundið þar sem hún er á stórum svæðum og mynda þannig „brunahólf" eða „eldgötu" sem geri sinubruna viðráðanlegri.

„Við erum að byggja upp náttúruperlur nærri byggð sem tiltölulega lítill bruni getur eyðilagt á dagparti. Því er full ástæða til að vera á varðbergi," segir Jón Viðar. Hann segir slökkviliðin ágætlega útbúin til að fást við eldana en lengi megi gera betur.

Jón Gunnar segir að búast megi við að sinueldar verði viðvarandi og aukið vandamál á höfuðborgarsvæðinu næstu áratugi vegna aukins gróðurs í landi. „Það þarf líka að hafa hugfast að lúpínusinan brennur mun hraðar og myndar margfaldan hita á við venjulegan sinueld. Þetta er tifandi tímasprengja." - shá

Jón Gunnar Ottósson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×