Viðskipti innlent

Ekki til orka fyrir sæstreng

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Frá lagningu sæstrengs. Mynd tengist frétt ekki beint.
Frá lagningu sæstrengs. Mynd tengist frétt ekki beint. Vísir / Landsnet
Hagfræðideild Landsbankans telur að sæstrengur sem flytur raforku á milli íslands og Bretlands muni hafa töluverð efnahagsleg áhrif hér á landi, bæði til langs og skamms tíma. Bankinn telur að þessi áhrif verði jákvæð. Það rafmagn sem liggur á lausu er hinsvegar ekki nóg til að standa undir sæstreng.

Þetta kemur fram í Hagsjá, fréttabréfi hagfræðideildar bankans, sem birt er á vefsíðu Landsbankans í dag. Samkvæmt yfirliti sem fram kemur í Hagsjá kemur fram að varafl í kerfinu var í kringum 2,1 TWst eða um 10 prósent af heildarframleiðslu.

„Núverandi svigrúm innlendra orkufyrirtækja til útflutnings á rafmagni í gegnum sæstreng er því verulega takmarkað og í raun einungis hægt að tala um útflutning á varaaflinu í því sambandi,“ segir hagfræðideildin í fréttabréfinu. „Varaaflið er þó ekki nægilega mikið eitt og sér til að geta staðið undir sæstreng og þyrftu því að koma til fleiri virkjanir eða að uppsett afl núverandi virkjana yrði aukið.“

Bankinn telur þó líklegt að meira fáist fyrir raforkuna í Bretlandi en hér á landi. „Breski raforkumarkaðurinn er tugfalt stærri en sá íslenski en með tengingu gæti skapast tækifæri fyrir íslenska raforkuframleiðendur að fá hærra verð fyrir framleiðslu sína,“ segir hagfræðideildin. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×