Skoðun

Ekki rífa Nasa!

Páll Óskar Hjálmtýsson skrifar

Ég mótmæli fyrirhuguðum framkvæmdum og breytingum á deiliskipulagi í Kvosinni þar sem á að minnka Ingólfstorg og rífa Nasa við Austurvöll, til að byggja fimm hæða hótel. Nasa er síðasta íslenska félagsheimilið í Reykjavík og við megum ekki leggjast svo lágt að rífa það.

Flest húsin við Ingólfstorg, að Nasa og gamla Landsímahúsinu meðtöldum, eru í eigu Péturs Þórs Sigurðssonar - það eina sem ég veit um hann er að hann er í Framsóknar­flokknum, konan hans heitir Jónína Bjartmarz og það er mjög erfitt að ná í hann í síma af því hann býr í Kína.

Eigendarétturinn er svo sterkur á Íslandi að ef borgin stendur í vegi fyrir einhverju sem eigandinn vill framkvæma er borgin bótaskyld. Þar að auki er ekki hægt að hagga deiliskipulagi sem samþykkt var árið sítt-að-aftan 1988. Til samanburðar er allt deili­skipulag í Svíþjóð endurskoðað á fimm ára fresti. Kallar þetta ekki á nýja lagasetningu?

Ég er með ágætis lausn á þessum ímyndaða hótelskorti. Það er búið að byggja hundrað hæða höll úr gleri í Borgartúni, sem stendur galtóm. Hvers vegna ekki að breyta þessu ferlíki í hótel? Húsnæði Nasa og starfsemin þar ætti að fá að standa óbreytt. Gamla Landsímahúsið mætti nota sem skrifstofur Alþingis. Þar vantar alltaf vinnu­aðstöðu. Skrifstofum Alþingis er svo lokað um svipað leyti og hjóðprufur hefjast inni á Nasa. Enginn truflar neinn. Allir eru ánægðir.

Við viljum ekki fleiri ruglframkvæmdir eða niðurrif á byggingum og stöðum sem eiga sér langa sögu. 2007 er búið. Aðkallandi verkefni bíða: Barnaheimilin, elliheimilin, öryrkjarnir og heilbrigðis­kerfið. Ekki eyða orku í að þjóna hagsmunum Péturs Þórs Sigurðssonar, af því að hann er í Framsóknarflokknum, á einhverjar byggingar úti um allan bæ og er lögfræðingur að mennt. Við erum þreytt á pólitísku baktjaldamakki.

Á morgun, 11. september 2009, rennur út frestur til að skila aðfinnslum að nýju deiliskipulagi hjá Reykjavíkurborg. Ef þú lætur ekki í þér heyra, til dæmis á heimasíðunni www.bin.is, telst þetta nýja deiliskipulag samþykkt. Vilt þú láta það gerast?

Höfundur er poppstjarna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×