Innlent

Ekki meiri hætta á að klipið verði af náttúrupassa en öðrum sköttum

Heimir Már Pétursson skrifar
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir aldrei hægt að koma í veg fyrir að ríkissjóður nýti eyrnarmerkta skatta og gjöld í annað en þeim er ætlað að fjármagna. Það eigi hins vegar ekkert frekar við um náttúrupassann en aðrar þær leiðir sem lagðar hafi verið til við fjármögnun uppbyggingar ferðamannastaða.

Kristján Már Unnarsson fréttamaður okkar rakti í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi hvernig ýmsir sérskattar vegna tímabundinna verkefna eins uppbyggingar vegakerfisins og í Vestmannaeyjum eftir gos hafi bæði ílengst og ekki runnið nema að hluta til þeirra verkefna sem þeir voru eyrnarmerktir. Þjóðarbókhlöðuskatturinn væri eini sérskatturinn sem hafi verið afnuminn en þó verið í innheimtur í tíu ár eftir að Þjóðarbókhlaðan var byggð.

„Og talandi um endurbætur á ferðamannastöðum. Núna í vikunni,  á síðasta degi fyrir fyrir jólahlé, samþykktu þingmenn bandorm sem skerðir framlag af gistináttaskatti sem fara átti til slíkra endurbóta. Við getum auðvitað ekki fullyrt  að skattheimta í nafni náttúrupassa,  komist hann á, hljóti sömu örlög,“ sagði Kristján Már í frétt sinni í gærkvöldi.

Á fréttamannafundi sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hélt hinn 9. desember til að kynna frumvarp um náttúrupassa spurðum við hana einmitt út í þetta atriði, þótt sá hluti viðtalsins hafi ekki verið birtur þá. En Ragnheiður Elín sagði að með náttúrupassanum ætti að tryggja trausta fjármögnun til langs tíma til uppbyggingar ferðamannastaða.

„Þannig að menn geti farið í deiliskipulagsvinnu, þeir geti skipulagt sig, undirbúið framkvæmdir vel án þess að þurfa að hafa það á hættu að það verði ekki til fjármunir ef þeir vanda sig við uppbygginguna,“ sagði Ragnheiður Elín.

Þetta væri  mikilvægt markmið og með því verði hægt að gera miklar úrbætur. Enda á náttúrupassinn að skila fjórum til fimm milljörðum á þremur árum.

Ríkissjóður hefur oft freistast til að teygja sig í svona sérskatta og eyða peningunum í eitthvað annað. Er hægt að koma í veg fyrir það með einhverjum hætti?

„Það er eflaust aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir það. En það á heldur ekki bara við um þetta. Það sama á við um aðrar þær leiðir sem menn eru að ræða. Hvort sem það heitir gistináttagjald eða komugjald. Þannig að það er bara sjálfstætt úrlausnarefni. Ég bendi hins vegar á það að gistináttagjaldið hefur skilað sér eftir ákveðinni reiknireglu. Þannig að ég á ekki von á að það verði eitthvað annað með þetta,“ sagði Ragnheiður Elín hinn 9. desember síðastliðinn. En þá var ekki búið að samþiggja fjárlögin frá Alþingi fyrir næsta ár þar sem klipið er af því framlagi sem skatturinn á að standa undir til uppbyggingar ferðamannastaða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×