Viðskipti innlent

Ekki markmið Seðlabanka að vera rekinn með hagnaði

Heimir Már Pétursson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun að markmið Seðlabankans séu flóknari en svo að vera rekinn með hagnaði.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun að markmið Seðlabankans séu flóknari en svo að vera rekinn með hagnaði. vísir/stefán
Seðlabankastjóri segir erfitt að skýra það út fyrir ráðamönnum að bindiskylda viðskiptabankanna hjá Seðlabankanum geti ekki verið tekjuöflunartæki. Þá sé bindiskylda nánast hvergi notuð sem stjórntæki. En formaður efnahags- og viðskiptanefndar undrast háa vexti sem Seðlabankinn greiðir viðskiptabönkunum af bindiskyldunni.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri kom á opin fund efnahags- og viðskiptanefndar í dag ásamt Þórarni G. Péturssynii aðalhagfræðingi bankans og Katrínu Ólafsdóttur fulltrúa í peningastefnunefnd bankans. Nefndarmenn spurðu út í stjórntæki bankans og efnahagsþróunina.

Frosti Sigurjónsson formaður nefndarinnar og þingmaður Framsóknarflokksins lýsti undrun sinni á háum vöxtum sem Seðlabankinn greiddi viðskiptabönkunum á innistæður þeirra í tengslum við bindiskyldu bankanna hjá Seðlabankanum.

„Það er mikið af lausu fé í umferð í bankakerfinu og fjármálakerfinu sem Seðlabankinn hefur lagt sog fram um að binda inni í Seðlabankanum með því að bjóða vexti á allt að 200 milljarða sýnist mér,“ sagði Frosti. Sem að hans mati leiddi líka til viðhalds á hærri vöxtum í bankakerfinu þegar þörf væri á að lækka þá.

Greiddir væru háir vexti á þessa 200 milljarða en á móti hefði Seðlabankinn ekki miklar tekjur af fyrirgreiðslu við bankana. Miðað við um 5 prósenta vexti hefði Seðlabankinn greitt viðskiptabönkunum um 10 milljarða á síðasta ár.

Már Guðmundsson sagði það ekki markmið Seðlabankans í sjálfu sér að evra rekinn með hagnaði, efnahagsleg markmið hans væru önnur.

„Kollegar mínir, seðlabankastjórar erlendis segja; við erum alltaf að reyna að útskýra þetta fyrir okkar ráðherrum og þeir skilja þetta í fimm mínútur og svo spyrja þeir aftur nokkrum dögum seinna,“ sagði seðlabankastjóri í svari sínu til Frosta.

Seðlabankinn væri tæki stjórnvalda til að ná skilgreindum markmiðum sem honum væru sett með lögum.

„Og hann kann að þurfa þess við vissar aðstæður að taka á sig mikið tap til að ná þessum markmiðum,“ sagði Már.

Dæmi um þessar mundir væri Seðlabanki Sviss sem væri að reyna að hemja hækkun á gengi svissneska frankans þótt það kostaði bankann verulega í afkomu.

„Það er ekki rétt í okkar huga að ræða þetta með stjórntækin út frá því hvort það er tap eða hagnaður á bankanum vegna þess að það er second-ert í þessu sambandi. Heldur hitt; eru stjórntækin nógu góð til að ná þessum markmiðum sem bankanum eru sett,“  sagði Már Guðmundson og lýsti því að stýrivextir hefðu hins vegar reynst gott altækt tæki í að ná verðbólgumarkmiðum bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×