Innlent

Ekki bara málefnin sem stóðu í vegi fyrir viðræðunum heldur einnig „menningarmunur“ flokkanna

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
„Ég hefði talið að við hefðum átt að geta náð saman um þetta“ segir Katrín Jakobsdóttir sem var gestur Heimis Más Péturssonar í Víglínunni, þjóðmálaþætti Stöðvar 2 í hádeginu.

Rætt var um stjórnarmyndunarviðræður sem voru í höndum Katrínar þar til í gær þegar hún skilaði umboðinu aftur til forsetans. Katrín lagði áherslu á að hún hefði reynt sitt besta við að mynda þá fimm flokka ríkisstjórn sem henni þótti vænlegust. Hafa verði þó í huga að flokkarnir hafi verið ólíkir og verið með ólíkar vinnuáherslur. Þarna spili því ekki einungis málefnin inn i viðræðurnar heldur einnig „menningarmunur“ flokkanna eins og Katrín orðaði það.

Vinstri græn hafa lagt áherslu á að auka jöfnuð í landinu og styðja að uppbyggingu í innviðum landsins, svo sem mennta- og heilbrigðismálum. Katrín nefndi að það skipti máli að auka tekjur ríkissjóðs en það þyrfti hins vegar ekki að gera með beinum sköttum einum saman. 

VG hefur lagt áherslu á að fá meiri jöfnuð inn í skattkerfið og kom meðal annars með hugmyndir um að hærri skattur ætti að leggjast á þá sem væru tekjuhæstir. Katrín nefndi að margir hafi talið flokksfólk VG vera óbilgjarnt varðandi þetta málefni en hún lagði áherslu á að ekki væri hægt að fara inn í svona viðræður og ætlast til þess að allir fengu allt sitt. Það yrði að gera málamiðlanir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×