Innlent

Ekkert traust á milli stjórnar og stjórnarandstöðu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Fullkomin óvissa ríkir á Alþingi um framhald þingstarfa og ekkert er samkomulag í sjónmáli. Þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir að ekkert traust ríki á milli stjórnar- og stjórnarandstöðu.

Samningaviðræður ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu sigldu í strand í gær vegna ágreinings um veiðigjaldafrumvarpið. Þingfundur hófst klukkan tíu í morgun og lauk klukkan þrjú. Ekki liggur fyrir hvenær þingfundi verður framhaldið en fjölmörg mál eru enn óafgreidd.

Það var fundað víða í alþingishúsinu í dag þar sem menn leituðu leiða til að ná samkomulagi um framhald þingstarfa.

Þrátt fyrir þessar þreifingar voru oddvitar stjórnarnadstöðunanr frekar svartsýnir á framhaldið.

„Það er hinsvegar eitt sem að er mjög erfitt að eiga við og það er að forystumenn stjórnarflokkanna, þau eru algjörlega ósveigjanleg þegar kemur að samningum," segir Gunnar Bragi Svavarsson, þingflokksformaður framsóknarmanna.

Ríkir ekkert traust á milli stjórnar og stjórnarandstöðu akkúrat núna? „Nei."

„Þegar menn setja á oddinn mál sem eru illa ígrunduð, illa undirbúin, eru umdeild og fá slæmar umsagnir og eru að setja grunn atvinnugrein í mikla óvissu, já þá er við því að búast að stjórnarandstaðan spyrni við fótum og það höfum við svo sannarlega gert," segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

„Ágreiningurinn liggur í því að stjórnarandstöðuflokkarnir, þessir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, vilja leggja til hliðar frumvarp um stjórn fiskveiða, gjörbreytt og nánast eyðileggja grundvöll frumvarps um veiðigjöld og það munum við ekki láta gerast," segir Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður VG.

Hann segir að ríkisstjórnin sé enn með vilja til sátta.

„Ég held að það sé vilji til að leysa þessi mál og landa þeim með sómasamlegum hætti. Og við erum að leggja á okkur talsvert til þess," segir Björn Valur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×