Enski boltinn

Eitthvað að drengnum þegar hvorki Sir Alex né Stóri Sam ráða við hann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ravel Morrison.
Ravel Morrison. vísir/getty
Harry Redknapp, knattspyrnustjóri QPR í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, viðurkennir að hann sé opinn fyrir því að semja við vandræðagemsann Ravel Morrison, leikmann West Ham.

Morrison gekk í raðir Hamranna frá Manchester United árið 2012 þegar Sir Alex Ferguson fékk nóg af honum, en hann hefur átt í vandræðum með að festa sér sæti í byrjunarliði Stóra Sam.

Miðjumaðurinn ungi var lánaður til Cardiff í byrjun tímabilsins en kom aftur til West Ham fyrr í þessum mánuði. Hann spilaði aðeins sjö leiki fyrir Cardiff.

Morrison var á láni hjá QPR á síðustu leiktíð og hjálpaði liðinu að vinna sér inn sæti í úrvalsdeildinni á þeim þremur mánuðum sem hann var þar.

„Ég er hrifinn af Ravel. Hann kom til mín á síðasta tímabili og ég átti ekki í neinum vandræðum með hann,“ sagði Redknapp við talkSPORT, en Morrison hefur átt í miklum vandræðum utan vallar.

„Það er eitthvað að drengnum þegar hvorki Sir Alex Ferguson né Sam Allardyce ráða ekki við hann. Hann þarf að koma hausnum í lag. En Ravel er hæfileikaríkur piltur og var gulls ígildi fyrir okkur á síðustu leiktíð.“

„Hann er góður strákur og rosalega góður í fótbolta. Við getum ekki keypt neina leikmenn þannig við erum að horfa til þess að fá einhverja að láni. Hann er leikmaður sem mér hefur verið bent á. Við munum skoða það ef West Ham lætur hann fara,“ sagði Harry Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×