Innlent

Einnig slökkt á götulýsingu í Hafnarfirði og Seltjarnarnesi vegna norðurljósaspár

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Spáð er mikilli norðurljósadýrð í kvöld.
Spáð er mikilli norðurljósadýrð í kvöld. Vísir/Getty
Slökkt verður á götulýsingu á Seltjarnarnesi og völdum svæðum í Hafnarfirði milli klukkan 22 og 23 í kvöld svo íbúar og gestir geti notið magnaðrar norðurljósasýningar sem spáð er á himni þegar aldimmt verður orðið. Spáð er mikilli norðurljósadýrð í kvöld en fyrr í dag tilkynnti Reykjavíkurborg að slökkt yrði á götulýsingu í borginni vegna norðurljósanna.

Í Hafnarfirði verður slökkt á götuljósum í Norðurbæ, Suðurbæ, Vesturbæ, Hraunum, miðbæ, á hafnarsvæði og holti en götulýsing verður á Reykjanesbraut, Strandgötu og Reykjavíkurvegi.

Norðurljósin hafa verið einkar glæsileg í vikunni en von er á að norðurljósaveislan nái hámarki í kvöld. Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, sagði í samtali við Vísi í gær að sýningin hefjist í raun um leið og sólin sest og nái hámarki um klukkan ellefu og til eitt um nóttina.

Segir hann best að fara út fyrir borgar- eða bæjarmörkin til þess að flýja sjónmengunina en ljóst er að ákvörðun yfirvalda á höfuðborgarsvæðinu um að slökkva á götulýsingu mun auðvelda íbúum og gestum svæðisins að verða vitni að sjónarspilinu.


Tengdar fréttir

Norðurljósaæði á Íslandi

Aukning ferðamanna yfir vetrarmánuði er að verulegu leyti rakin til norðurljósa sem ná sex stigum í kvöld, sem er fátítt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×